Handbolti

Hannes fær Sigtrygg lánaðan: „Held við séum allir að græða“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigtryggur Daði Rúnarsson er á leið til Austurríkis.
Sigtryggur Daði Rúnarsson er á leið til Austurríkis. vísir/vilhelm

Sigtryggur Daði Rúnarsson, leikmaður ÍBV, hefur verið lánaður til Alpha Hard í Austurríki sem Hannes Jón Jónsson stýrir. Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta við Vísi eftir tapið fyrir Aftureldingu, 31-26, í dag.

„Hann verður lánaður út þetta ár. Hann fer til Hannesar,“ sagði Erlingur. Hann gerir svo ráð fyrir því að endurheimta Sigtrygg á nýju ári.

„Já, það eru bara meiðsli í herbúðum Hard. Hannes hringdi og við ræddum þetta. Þetta er tækifæri fyrir okkar menn að fara í Evrópukeppni. Hann fær slatta af spiltíma. Svo erum við líka nokkra unga leikmenn sem við þurfum að sjá til að keppi og fái mínútur. Ég held við séum allir að græða.“

Leikur Aftureldingar og ÍBV var jafn framan af en undir lok fyrri hálfleiks tóku Mosfellingar fram úr. Sá kafli gerði útslagið.

„Hann var dýr. Við tókum skot of snemma og vorum illa undirbúnir til að klára sóknirnar. Þeir fengu einhver 6-7 hraðaupphlaup á fyrsta tempói. Staðan breyttist hratt og 18-11 í hálfleik var stórt bil til að brúa þótt við höfum vissulega reynt,“ sagði Erlingur.

En fannst honum Eyjamenn vera nálægt því að koma til baka í seinni hálfleiknum?

„Já og nei. Það kom tækifæri í seinni hálfleiknum en samt sem áður ekki nóg til brjóta leikinn þannig upp. Það er samt ótrúlegt að leikurinn hafi bara endað með fimm marka mun,“ svaraði Erlingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×