Umfjöllun og viðtöl: FH - Haukar 27-26 | FH-ingar unnu slaginn um Hafnarfjörð með minnsta mun

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
FH-ingar gátu leyft sér að brosa í kvöld.
FH-ingar gátu leyft sér að brosa í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

FH tryggði sér montréttinn er liðið vann dramatískan sigur gegn Haukum í Hafnarfjarðarslag 6. umferðar Olís-deildar karla í handbolta í kvöld, 27-26.

FH-ingar byrjuðu leikinn töluvert betur og komu sér stax í fjögurra marka forystu 5-1. Þá tók Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, leikhlé og reyndi að kveikja í sínum mönnum. 

Það virtist ganga upp og voru Haukar búnir að jafna þegar stundarfjórðungur var liðin, 7-7. Haukar virtust ekki ná að halda leiknum í jafntefli og voru FH-ingar komnir þremur mörkum yfir stuttu seinna. 

Það var hart barist í leiknumVísir: Hulda Margrét

Áfram héldu FH-ingar að auka forskotið á meðan sóknarleikur var ekki upp á marga fiska og einkendist af töpuðum boltum og ótímabærum skotum á markið. Staðan í hálfleik 13-10 fyrir FH. 

Haukarnir mættu aðeins ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og minnkuðu muninn hægt og rólega. Þegar um stundarfjórðungur voru eftir af leiknum náðu Haukar að koma sér yfir 18-19. Það dugði skammt og gáfu FH-ingar ennþá meira í. 

Síðustu tíu mínútur leiksins voru æsispennandi. Jón Bjarni Ólafsson fékk beint rautt spjald eftir brot á Heimi Óla Heimissyni. FH kom sér stuttu seinna í þriggja marka forystu 26-23. Haukar jöfnuðu þegar tæplega ein mínúta var eftir en FH nýttu síðustu sóknina og unnu að lokum eins marks sigur 27-26. 

FH-ingar fögnuðu vel í leikslokVísir: Hulda Margrét

Afhverju vann FH?

Þeir spiluðu betur en Haukarnir í dag. Sóknarleikur þeirra var agaður og góður á löngum köflum í leiknum og náðu þeir að þvinga Haukana í ótímabær skot. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá FH voru Birgir Már Birgisson og Ásbjörn Friðriksson atkvæðamestir með fjögur mörk hvort. Phil Döhler var góður í markinu og varði 12 bolta, 33% markvarsla í dag. 

Ásbjörn skoraði fjögur mörk fyrir FH í dagVísir: Hulda Margrét

Hjá Haukum var Andri Már Rúnarsson atkvæðamestur með sex mörk. Matas Pranckevicus var góður í markinu með 12 bolta varða, 32% markvarsla. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka í fyrri hálfleikur var slakur. Þeir köstuðu boltanum útaf og voru að taka ótímabær skot. Þeir skoruðu ekki eitt mark þegar þeir voru í yfirtölu í fyrri hálfleik. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn 30. október kl 13:30 fara FH-ingar til Eyja og mæta ÍBV. Mánudaginn 31. október kl 19:30 fá Haukar Fram í heimsókn

Rúnar: „Alltaf þegar við áttum tækifæri á að gera eitthvað þá erum við okkur sjálfum verstir“

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka var svekktur í leikslokVísir: Hulda Margrét

„Ég myndi segja að við byrjum leikinn illa, þeir eru komnir með fimm mörk eftir fjórar mínútur. Alltaf þegar að við komum að þeim þá gerum við okkur seka um ótrúlegustu feila. Lélegar ákvarðanir hvort sem að það er í stöðunni 7-7 eða aftur seinna í leiknum þegar að við nálgumst þá. Það var einhvernveginn leikur okkar í dag, alltaf þegar við áttum tækifæri á að gera eitthvað þá erum við okkur sjálfum verstir,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Hauka, svekktur eftir eins marks tap á móti FH, 27-26 í kvöld. 

„Það var allavega ekki það í gangi sem að átti að vera í gangi. Að kasta boltanum útaf í yfirtölu, við klikkum, þetta var spennustigið eða eitthvað. Þetta á ekki að gerast, við erum á því sviði að þessi atriði eiga ekki að gerast en þau gerast.“

Haukar hafa átt erfitt uppdráttar í Kaplakrika en Rúnar vill ekki meina að það sé huglægt hjá sínum mönnum 

„Ég vil að við séum meiri bófar og látum kné fylgja kviði þegar við erum búnir að vinna okkur inn í leikinn, jafna leikinn eða komast yfir, þá tökum við lélegar ákvarðarnir. Hvort sem að það er í stuttum sóknum, sóknarbrot, fáum tveggja mínútna brottvísun. Það gekk einhver smá einbeiting niður hjá okkur og andstæðingurinn gekk á lagi.“

Rúnar vill að strákarnir stígi næsta skref og vilji vera í forystu 

„Við þurfum að vilja að vera í forystu og vilja leiða, það er þá næsta skref. Menn lögðu sig fram og ég er ánægður með það. Við töpum núna tveimur leikjum með einu marki, þetta var mun skárra heldur en síðasti leikur hjá okkur, batamerki. Það er bara að stíga næsta skref.“


Tengdar fréttir

„Það er alltaf gott að vinna, sérstaklega Hauka

„Ég er ofboðslega glaður. Það er alltaf gott að vinna, sérstaklega Hauka,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, sáttur eftir eins marks sigur á Haukum 27-26. FH hafði yfir höndina bróðurpart leiksins og eftir æsispennandi lokamínútur náðu þeir að sigla þessu í höfn. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira