Körfubolti

„Tvö mismunandi lið sem mættu til leiks“

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson er þjálfari Vals.
Ólafur Jónas Sigurðsson er þjálfari Vals. Vísir/Bára Dröfn

Valskonur sóttu góðan sigur til Grindavíkur í Subway-deild kvenna í kvöld, lokatölur suður með sjó 72-80. Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Vals tók undir þau orð blaðamanns að það mætti kalla þetta endurkomusigur, en það var einfaldlega allt annað Valslið sem mætti til leiks í seinni hálfleik samanborið við þann fyrri.

„Jú heldur betur. Það voru bara tvö mismunandi lið sem mættu til leiks hjá mér hérna í kvöld. Við vorum ekki tilbúnar í fyrri hálfleik en börðum okkur aðeins saman í hálfleik og mættum klárar í seinni hálfleikinn,“ sagði Ólafur í viðtali við Vísi eftir leik.

Grindavík virtist vera með góð tök á leiknum í fyrri hálfleik, hvað sagði Ólafur eiginlega við sínar konur til að kveikja í þeim fyrir endurkomuna í seinni hálfleik?

„Ég veit það ekki, þú getur horft á spjaldið mitt, það er ekki lengur til staðar. [Spjaldið sem Ólafur notar til að teikna leikkerfin upp á var með stóru gati í miðjunni eftir leikinn, innsk. blm.] En þetta er bara ekki boðlegt, að við mætum svona til leiks. Að við höldum að við séum eitthvað meira heldur en við erum og við áttuðum okkur á því í hálfleik og fórum vel yfir það.“

Það hlýtur að vera margt jákvætt sem Ólafur getur tekið út úr þessum leik, þá sérstaklega seinni hluta hans?

„Algjörlega. Ef við mætum svona til leiks, bara eins og við töluðum um fyrir leik að við ætluðum að gera. Ef við mætum svona til leiks eins og við gerðum í seinni hálfleik þá erum við helvíti góðar. Við spilum helvíti góðan leik á móti Keflavík í svona 38 mínútur. En hérna þá mætum við ekki til leiks í fyrri hálfleik. En við þurfum að mæta og spila svona í 40 mínútur og ná að tengja saman meira en einn hálfleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×