Handbolti

Gísli Þorgeir: Fannst við sýna fagmennsku og virðingu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir átti frábæran leik í sókn íslenska liðsins.
Gísli Þorgeir átti frábæran leik í sókn íslenska liðsins. Vísir/Hulda Margrét

„Fimmtán marka sigur, topp stemmning og frábærir áhorfendur. Við getum eiginega ekki beðið um meira,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson eftir sigur Íslands á Ísrael en Gísli átti mjög góðan leik fyrir íslenska liðið.

Það urðu skakkaföll í íslenska liðinu í vikunni og leikmenn eins og Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon féllu úr skaftinu. Gísli Þorgeir var ánægður með hvernig liðið svaraði þessum áföllum.

„Mér finnst við bregðast þokkalega vel við því satt að segja. Við missum tvo heimsklassa leikmenn úr liðinu sem eru lykilleikmenn en mér finnst hópurinn sýna sem heild hvað eru mikil gæði í þessu liði. Þessi sama gamla klisja, maður í manns stað og allt það, en það sýndi sig virkilega í dag að gæðin eru sannarlega til staðar.“

„Það eru margir að segja að við ættum svoleiðis að valta yfir Ísrael en það er ekkert sjálfsagt, það er ekkert sjálfsagt í þessum handbolta lengur og mér fannst við sýna þessu verkefni mikla fagmennsku og virðingu. Ég er mjög glaður með það.“

Gísli Þorgeir er lykilmaður í liði Magdeburg sem varð Þýskalandsmeistari á síðasta tímabili og þar að auki með stórt hlutverk í landsliðinu.

„Auðvitað fylgir því ábyrgð að vera miðjumaður í landsliðinu og þar sem ég er í Þýskalandi og ég því bara með mikilli reisn og miklu stolti. Ég ætla bara að halda áfram mínu striki og gefa mitt fyrir liðið.“

Framundan um helgina er leikur gegn Eistlandi.

„Þetta er erfiður útivöllur, þetta verður ekki auðvelt og eflaust einhverjir sem segja líka að við eigum að valta yfir þá og svoleiðis ble. Það er ekkert sjálfsagt í þessu og við þurfum að sýna því verkefni nákvæmlega sömu virðingu og við gerðum í dag. Þetta verður erfiður leikur en ekkert sem við ættum ekki að ráða við, við ætlum okkur sigur,“ sagði Gísli að lokum.


Tengdar fréttir

Guðmundur: Þurfum að viðhalda stöðugleikanum

„Frammistaðan var frábær, ég vil byrja á því að þakka stuðningsmönnum og áhorfendum fyrir stórkostlegan stuðning. Enn og aftur er uppselt og það verður gaman þegar við fáum þjóðarhöllina og sjáum sex þúsund áhorfendur á leik. Það vonandi styttist í það,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands eftir góðan sigur á Ísrael í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×