„Ég þekki labelið Houndstooth í gegnum Paul Corley sem mixaði síðustu plötuna mína. Þeir höfðu lýst áhuga á því að vinna saman í kringum þá plötu en ég ákvað að gefa hana frekar út sjálf.
Svo núna þegar þessi plata var tilbúin, fyrr á árinu, langaði mig að prófa að vinna með labeli aftur í fyrsta sinn í langan tíma og þá varð Houndstooth fyrir valinu,“ segir Jófríður í samtali við Vísi.
Aðspurð hvernig tilfinningu hún hafi fyrir samstarfinu er Jófríður spennt fyrir framhaldinu: „Eins og ég sagði þá hef ég ekki unnið með labeli í langan tíma því það er svo margt sem maður getur gert sjálfur og það skiptir miklu máli að hafa góðan samning og góða tilfinningu fyrir fólkinu sem maður vinnur með í þessum efnum. Þeir hjá Houndstooth eru með hjartað á réttum stað og ég hlakka til að vinna með þeim.“
Hugsar mikið um nýtt upphaf
Leikstjóri myndbandsins er Joseph Burgess. Jófríður segir lagið gefa til kynna hvað koma skal í tónlistinni. „Ég hugsa um lögin mín dálítið eins og orkideur,“ segir Jófríður.
Verið í tónlist frá fjórtán ára aldri
Tónlistin hefur átt hug hennar síðan hún var fjórtán ára gömul og hefur hún gefið úr þó nokkrar plötur síðan þá, bæði sem meðlimur hljómsveitanna Pascal Pinon og Samaris og tvær breiðskífur sem JFDR. Einnig hefur hún verið í samstarfi með öðrum tónlistarmönnum. Þar má helst nefna Ólaf Arnalds og Damien Rice.
Þess má til gamans geta að tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir nefndi Jófríði nýlega í viðtali sem einstakling sem veitir henni innblástur.
Plata á næsta ári
Það er margt framundan en Jófríður stundar nám ásamt því að vinna tónlistartengt verkefni. „Ég er að vinna í tónlist fyrir sjónvarpsefni um þessar mundir, tvö verkefni sem eru alveg að klárast, svo er ég í Listaháskólanum að læra tónsmíðar og stefni að því að gefa út nýja plötu á næsta ári.“