Skoðun

Hvar er afreksíþróttastefnan?

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Íslenskt afreksíþróttafólk hefur síðastliðinn áratug reglulega vakið athygli á slæmri fjárhags- og réttindastöðu sinni. Íþróttafólkið sem fyllir okkur stolti á alþjóðavettvangi býr við tekjuóöryggi og á nær engan rétt í kerfinu, til aðgangs að sjúkrasjóðum, fæðingarorlofs, lífeyrisréttinda eða annars stuðnings sem launafólk álítur sjálfgefinn. Íþróttahreyfingarnar hafa líka jafn lengi kallað eftir heildstæðri stefnu í málaflokknum.

Það var í ljósi þessa sem ég lagði fram þingsályktun um mótun stefnu um afreksfólk í íþróttum, sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ráðherra íþróttamála að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.“

Mér til mikillar gleði var tillagan samþykkt einróma en síðan er liðið á annað ár. Í tillögunni fól Alþingi ráðherra að leggja stefnuna fram fyrir 1. júní 2022. Það gerði hann ekki.

Þegar ekkert bólaði á stefnunni fjórum mánuðum eftir að ráðherra bar að skila henni til Alþingis lagði ég inn fyrirspurn og spurði ráðherra íþróttamála um stöðuna. Það hlýtur að fara að styttast í svörin enda fyrirspurnin efnislega einföld: Hvað líður vinnunni?

Vonandi mun ráðherra getað svarað því til að stefnan sé nær fullunnin. Það væri verulega svekkjandi ef vilji Alþingis til að bæta úr stöðu afreksíþróttafólksins okkar, sbr. einróma samþykki á tillögu minni þar að lútandi, yrði virtur að vettugi og stefnan rataði í glatkistu ríkisstjórnarinnar. Afreksíþróttafólkið okkar á sannarlega annað og betra skilið.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×