Golf

Ársbann fyrir eldri kylfinga sem gáfu frat og löngutöng í dómara

Kjartan Kjartansson skrifar
Mönnum var heitt í hamsi á Íslandsmóti eldri kylfinga í sumar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Mönnum var heitt í hamsi á Íslandsmóti eldri kylfinga í sumar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/VIlhelm

Þrír kylfingar sem var vísað frá Íslandsmóti eldri kylfinga á Akureyri í sumar hafa verið úrskurðaðir í árslangt keppnisbann fyrir alvarleg agabrot. Þeir tóku meðal annars höndum saman um að hunsa vítahögg sem dómari hafði dæmt á tvo þeirra.

Úlfaþytur skapaðist í íslenska golfheiminum í sumar þegar þeim Margeiri Vilhjálmssyni, Kristjáni Ólafi Jóhannessyni og Helga Svanberg Ingasyni var vísað úr Íslandsmóti eldri kylfinga sem var haldið á Jaðarsvelli á Akureyri í júlí. 

Margeir, sem er golfkennari og stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur (GR), skrifaði meðal annars harðorðan pistil á Facebook eftir atvikið og vandaði dómurum og mótsstjórn ekki kveðjurnar. Nafngreindi hann sjálfboðaliða á mótinu og sakaði starfsmenn mótsins um lygar.

Aron Hauksson, yfirdómari GR, sagði af sér í mótmælaskyni við að Margeir fengi að sitja áfram í stjórn klúbbsins á meðan aganefnd Golfsambandsins hefði mál hans til skoðunar. Margeir er enn skráður aðalmaður í stjórn GR á vefsíðu klúbbsins.

Í uppnámi og skráðu ekki vítahöggin

Ástæða frávísunarinnar var sú að Kristján Ólafur og Helgi Svanberg skrifuðu of lágt skor á skorkort sem þeir skiluðu inn eftir hringinn en Margeir staðfesti rangt skor vísvitandi sem ritari. Þremenningarnir höfðu ákveðið að skrá ekki tvö vítahögg sem Kristjáni Ólafi og Helga Svanberg höfðu verið dæmd fyrir brot á staðarreglu þegar þeir tóku æfingarpútt á flöt eftir að þeir luku leik á 17. holu vallarins.

Í úrskurði aganefndar er rakið hvernig Margeir þrætti við dómarann sem dæmdi vítin á meðspilara hans. Hélt hann því fram að aðrir kylfingar á mótinu hefðu tekið æfingarpútt vítislaust og að reglan hefði ekki verið kynnt keppendum.

Þegar þremenningarnir mættu til að skila inn skorkortum sínum hafi þeir verið æstir. Margeir hafi lýst því yfir að úrskurður dómara hafi verið rugl og meðspilarar hans ættu þess vegna að hunsa hann með því að skrá ekki vítahöggin á sig.

Sendi dómurum löngutöng

Kristján virðist hafa iðrast ákvörðunar sinnar en í úrskurðinum kemur fram að þegar hann var fenginn til fundar við dómara í herbergi mótstjórnar á mótinu hafi hann sagði að honum hefði verið ljóst að honum hefðu verið úrskurðuð vítahögg. Hann hefði hins vegar hrifist með „í einhverri stemmingu“ sem hafi orðið til í ráshópnum og því hefði hann ekki skráð vítin á skorkort sitt.

Helgi tók frávísuninni af mótinu verr. Gekk hann á dyr af fundi með dómara. Reyndi hann í kjölfarið ítrekað að ræða við mótsstjórn til að fá frekari skýringar. Síðar um daginn hafi hann sýnt dómurum löngutöng þegar þeir óku fram hjá honum þar sem hann sat á bekk.

Margeir var einnig afar ósáttur og reyndi að fá frávísuninni hnekkt en hafði ekki erindi sem erfiði. Daginn eftir hélt hann því fram að hollinu hefði ekki verið ljóst að dómari hefði dæmt víti á tvímenningana. Þá fannst honum að staðarreglur hefðu ekki verið birtar rétt eða kynntar nægilega vel.

Síðar um daginn birti Margeir umrædda Facebook-færslu þar sem hann gagnrýndi mótsstjórnina harðlega. Nafngreindi Margeir sérstaklega alla fulltrúa stjórnarinnar sem komu að málinu og merkti jafnframt forseta Golfsambandsins.

Gerði auknar kröfur til Margeirs sem fyrirmyndar annarra kylfinga

Aganefndin komst að þeirri niðurstöðu að Helgi og Kristján hefðu sýnt af sér óprúðmannlega og ámælisverða hegðun þegar þeir ákváðu að skrá ekki vítishöggin sem þeim voru úrskurðuð. Þeir hafi þannig ákveðið að hafa rangt við í golfmótinu með því að hunsa úrskurð dómara. Með því hafi þeir sýnt dómara, starfsmönnum og öðrum keppendum vanvirðingu.

Framkoma Helga að sýna formanni mótanefndar og dómara löngutöng hafi jafnframt sýnt virðingarleysi við sjálfboðaliða sem störfuðu á mótinu.

Margeir var talinn hafa sýnt af sér ámælisverða hegðun með því að láta sér í léttu rúmi liggja hvort að skor meðspilara hans væri rétt skráð. Með þessu og Facebook-færslu sinni hafi hann sýnt keppinautum og starfsfólki mótsins vanvirðingu.

Við ákvörðun refsingar leit aganefndin sérstaklega til stöðu Margeirs sem eins af bestu kylfingum landsins, golfkennara og héraðsdómara. Taldi nefndin að gera mætti kröfur til Margeirs um að framkoma hans væri öðrum kylfingum fyrirmynd.

Kylfingarnir þrír voru taldir hafa sýnt af sér óprúðmannlega og ámælisverða hegðun og gerst sekir um alvarleg agabrot. Hæfileg refsing var talin tólf mánaða leikbann sem gildir frá 30. september 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×