Körfubolti

Þórsarar fengu Hernández á brostnum forsendum | KKÍ breytti reglunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pablo Hernandez í leik með Þór Akureyri gegn Þór Þorlákshöfn tímabilið 2019/20.
Pablo Hernandez í leik með Þór Akureyri gegn Þór Þorlákshöfn tímabilið 2019/20. Facebook/Þór Þorlákshöfn

Þór frá Þorlákshöfn samdi í sumar við Spánverjann Pablo Hernández á grundvelli skriflegra svara KKÍ þess efnis að hann yrði undanþeginn því að vera talinn sem erlendur leikmaður í Subway-deild karla. Breyting varð svo á því síðar í sumar, eftir að Þór hafði samið við leikmanninn.

Ný regla, svokölluð þriggja ára regla, var tekin upp í sumar um erlenda leikmenn í Subway-deildinni. Aðeins þrír erlendir leikmenn geta verið á vellinum á sama tíma, en fjölmargir með erlent vegabréf eru þó undanþegnir því að teljast sem erlendir leikmenn vegna reglna um búsetu hér á landi. Þeir sem hafa átt þriggja ára samfellda búsetu á Íslandi teljast í því samhengi sem Íslendingar.

Hernández hefur leikið í heimalandinu síðustu tvö tímabil, eftir að hafa leikið með Þór Akureyri tímabilið 2019 til 2020, en hefur verið með skráð lögheimili hér á landi frá 2019 og ætti því, samkvæmt Þórsurum, að falla undir þriggja ára regluna sem Íslendingur.

Klippa: Körfuboltakvöld: Þór og Hernández

Samkvæmt heimildum Körfuboltakvölds fengu Þórsarar skrifleg svör frá Körfuknattleikssambandi Íslands sem staðfestu að svo væri. Hernández enda haft skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár. Þórsarar stukku því til og sömdu við Hernández á þeim forsendum.

Þegar líða tók á sumarið sendi KKÍ hins vegar bréf á liðin í deildinni þar sem fram kom að leikmenn þyrftu að hafa búið hér á landi í öll þau þrjú ár, og dygði skráða búsetan því ekki til.

Þórsarar sitja því uppi með leikmann sem þeir sömdu við í þeirri trú að hann teldist sem Íslendingur, en gerir það ekki. Fimm erlendir leikmenn, samkvæmt skilgreiningu KKÍ, eru á mála hjá félaginu en aðeins þrír þeirra geta verið inni á vellinum á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×