Handbolti

Ulrik Wilbek að missa heyrnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ulrik Wilbek hellti sér út í pólítík eftir langan og farsælan feril í handboltanum.
Ulrik Wilbek hellti sér út í pólítík eftir langan og farsælan feril í handboltanum. getty/Jan Christensen

Ulrik Wilbek, fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur í handbolta og borgarstjóri í Viborg, þjáist af heyrnarkvilla.

Hinn 64 ára Wilbek hefur greint frá því að hann sé með skyndilega heyrnarskerðingu og eyrnasuð.

„Þetta hefur í för með sér áskoranir, sérstaklega í margmenni þar sem hljómburðurinn er slæmur. Ég á erfitt með að einbeita mér og verð þreyttur á endanum. Þetta er eins og hraðbraut þar sem bílarnir stöðva aldrei,“ sagði Wilbek við DR.

Læknar hafa tjáð Wilbek að ólíklegt sé að hann endurheimti eðlilega heyrn á hægra eyra. Hann ætlar samt að halda starfi sínu borgarstjóri Viborg áfram en reynir að forðast mannmarga viðburði eins og hann getur. Wilbek segir þó ólíklegt að hann sækist eftir endurkjöri. Hann hefur verið borgarstjóri Viborg síðan í janúar 2018.

Wilbek náði frábærum árangri með bæði karla- og kvennalið Danmerkur. Undir hans stjórn varð kvennalandslið Dana heims-, Evrópu- og Ólympíumeistari. Wilbek gerði svo karlalandslið Dana að Evrópumeisturum í tvígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×