Umræðan

Helstu hætturnar fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna og Kína

Stephen S Roach skrifar

Það er freistandi að hrósa Seðlabanka Bandaríkjanna fyrir skörugleg vinnubrögð í baráttunni við verðbólguna. Ámóta freistandi er að hrósa Xi Jinping, forseta Kína, fyrir forystu sína í rísandi og sterku Kína. Hvorugur á hins vegar hrós skilið og það af sambærilegum sökum.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur nú hækkað vexti um 75 punkta þrjú skipti í röð. Um er að ræða skörpustu vaxtahækkun á fjögurra mánaða tímabili frá árinu 1982. Eins og við mátti búast heyrast kröftug mótmæli frá bæði álitsgjöfum og stjórnmálastéttinni, varandi við yfirskotum við vaxtahækkanir. Ég er ósammála. Það er löngu orðið tímabært fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna að byrja á að grafa sig upp úr þeirri dýpstu holu sem hann hefur nokkurn tíma komið sér í.

Með áherslu á „að byrja.“ Meginvextir bankans eru nú í um 3,1 prósenti sem er fimm prósentustigum undir meðalverðbólgu síðustu þriggja mánaða sem er 8 prósent. Þrátt fyrir hinn nýfundna metnað seðlabankans til að ná tökum á verðbólgunni áður en hún fer úr böndunum þá er það verkefni ómögulegt með neikvæða raunvexti upp á fimm prósent.

Það er löngu orðið tímabært fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna að byrja á að grafa sig upp úr þeirri dýpstu holu sem hann hefur nokkurn tíma komið sér í.

Seðlabankastjórinn Jerome Powell hefur viðurkennt að aðhaldssöm peningastefna er nauðsynleg til að ná tökum á verðbólgunni. Brjótum niður hvað það þýðir. Miðað við opinberar verðbólgutölur ætti hlutlaus peningastefna að taka mið af meðaltali meginvaxta siðustu 60 ára sem er 1,1 prósent. Miðað við að meginvextir bankans eru nú neikvæðir um fimm prósent, þá hlýtur aðhaldssöm peningastefna að kalla á hærri vexti en hlutlausa. Nú eru meginvextir neikvæðir um fimm prósent og því er peningastefnan langt frá því að vera hlutlaus, hvað þá aðhaldssöm.

Hér vandast málin. Powell sagði á blaðamannafundi þann 21. september síðastliðinn að stefna seðlabankans væri nú að nálgast neðri mörk hins aðhaldssama. Var það mat byggt á verðbólgutölum sem undanskilja verðlagsbreytingar á orku og matvælum. Samkvæmt þeim mælikvarða var 12 mánaða verðbólga um 4,6 prósent í júlí.

Þessi nálgun veldur nokkrum vonbrigðum af tvennum sökum. Meginvextir seðlabankans eru langt undir þeim mælikvarða sem Powell horfir til og það sem alvarlegra er: Að horfa til kjarnaverðbólgunnar (sem undanskilur orku og matvæli) er hættulegt. Það var hættulegt á áttunda áratugnum og er hættulegt í dag.

Nú eru meginvextir neikvæðir um fimm prósent og því er peningastefnan langt frá því að vera hlutlaus, hvað þá aðhaldssöm.

Kjarnaverðbólga snýr að því að horfa framhjá stórum skellum í verðlagi líkt og Powell gerði í upphafi. Arthur Burns, seðlabankastjóri Bandaríkjanna á árunum 1970 til 78, horfði framhjá stórum skellum í verðlagsþróun ítrekað á áttunda áratugnum þar til það var orðið of seint.

Fyrir Kína snýr „kjarninn“ minna að verðbólgu og meira að persónulegri vídd stjórnunar, en Xi Jinping hefur verið útnefndur sem hinn svokallaði „kjarnaleiðtogi“ landsins. Undir forystu Xi hefur orðið mikil afturför í stjórnskipun Kína. Ólíkt vegferðinni í átt að auknu frjálsræði undir stjórn Deng Xiaoping sem hófst fyrir um fjórum áratugum síðan, er þungur hrammur flokksins í valdatíð Xi alltumlykjandi um þessar mundir. Þetta sést einna best í stóraukinni lagasetningu gagnvart fyrirtækjum sem reka markaðstorg og annað slíkt á internetinu, en þau hafa verið afskaplega mikilvæg fyrir vöxt einkageirans þar í landi. Stefna sem snýr að endurdreifingu auðs rær í sömu átt.

Samanlagt gæti þetta dregið mjög úr nýsköpun, einkaframtaki og framleiðni. Kína er að eldast og minnkandi framleiðni í landinu mun draga mjög úr vaxtarmöguleikum hagkerfisins til lengri tíma. Neytendur í Kína sjá þetta með eigin augum og þróunin mun án efa ýta enn frekar undir sparnað sem hefur lengi haldið aftur af einkaneyslu í Kína.

Ólíkt vegferðinni í átt að auknu frjálsræði undir stjórn Deng Xiaoping sem hófst fyrir um fjórum áratugum síðan, er þungur hrammur flokksins í valdatíð Xi alltumlykjandi um þessar mundir.

Sú staða að Seðlabanki Bandaríkjanna einblínir á kjarnaverðbólgu og „kjarnaleiðtogi“ Kína herði nú tök sín á hagkerfinu skapar hættuna á meiriháttar hagstjórnarmistökum. Ef peningamálayfirvöld einblína á kjarnaverðbólgu gætu þau vanmetið raunveruleg vandamál í verðlagsþróun. Í framhaldi að því munu fjármálamarkaðir vanmeta vaxtahækkanirnar sem þarf til að ná verðbólgu aftur í tveggja prósent markmiðið.

Mig grunar að meginvextir seðlabankans þurfi að fara í 5 til 6 prósent til að ná böndum á verðbólgunni. Seðlabanki Bandaríkjanna gæti því verið aðeins hálfnaður í vegferð sinni í átt að verðstöðugleika. Það þýðir efnahagssamdrátt á árinu 2023, sem kemur ofan í niðursveifluna sem nú hrjáir Evrópu. Mjög hefur eins hægst á hagkerfi Kína og því ólíklegt að landið geti haldið uppi hagvexti á heimsvísu. Heimskreppa virðist þess vegna nánast óumflýjanleg á næsta ári.

Leiðtogi Kína einbeitir sér nú einna helst að hugmyndafræði og að herða tökin á hagkerfi landsins. Ein afleiðing þessa er að hann er óundirbúinn fyrir þær efnahagslegu áskoranir sem eru framundan. Það er kaldhæðnislegt í ljósi þess að aðeins eru nokkrar vikur þar til 20. ársþing kínverska kommúnistaflokksins fer fram þar sem Xi mun væntanlega verða kjörinn leiðtogi til fimm ára í þriðja sinn.

Mig grunar að meginvextir seðlabankans þurfi að fara í 5 til 6 prósent til að ná böndum á verðbólgunni. Seðlabanki Bandaríkjanna gæti því verið aðeins hálfnaður í vegferð sinni í átt að verðstöðugleika.

Rétt eins og þegar seðlabankar horfa einungis á kjarnaverðbólgu, þá eru völd „kjarnaleiðtoga“ uppskrift að misráðinni og að lokum ósjálfbærri hagstjórnarstefnu. Að einblína á kjarna gefur falskar væntingar um nákvæmar lausnir við flóknum og erfiðum vandamálum. Það á bæði við um verðbólgumarkmið og stjórnun ríkja. Þessi þráhyggja er jafn hættuleg Bandaríkjunum og hún er fyrir Kína - og svo ekki sé minnst á þá sameiginlegu veikleika sem eru að ýta undir vaxandi spennu í samskiptum milli þjóðanna.

Höfundur er fyrrverandi stjórnarformaður og aðalhagfræðingur Morgan Stanley í Asíu og starfar við Yale-háskóla í dag, @Project Syndicate, 2022. Hann er höfundur bókarinnar Accidental Conflict: America, China and the Clash of False Narratives sem kemur út innan skamms. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×