Viðskipti innlent

Jón fjár­festir í HPP Solutions og verður stjórnar­for­maður

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Sigurðsson lét af störfum hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri þann 1. apríl á þessu ári eftir 26 ár sem forstjóri.
Jón Sigurðsson lét af störfum hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri þann 1. apríl á þessu ári eftir 26 ár sem forstjóri. HPP Solutions

Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar, hefur tekið við sem stjórnarformaður HPP Solutions ehf. samhliða kaupum á eignarhlut í félaginu. Jón lét af störfum hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri þann 1. apríl á þessu ári eftir 26 ár sem forstjóri.

Í tilkynningu kemur fram að HPP framleiði verksmiðjur sem vinni hágæða prótein og olíur úr hvítfisk, uppsjávarfisk, laxfiskum og skeldýrum.

„Þær eru smíðaðar í mismunandi stærð eftir því hvort þær eru fyrir skip eða landvinnslu. HPP próteinverksmiðjur hafa verið seldar til útgerða og landvinnsla í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Færeyjum, Englandi, Finnlandi, Frakklands og Noregs. Hér á landi hafa verið seldar fjórar HPP verksmiðjur. Þar á meðal er ein um borð í fullkomnasta fiskiskipi Norðurslóða, Ilivileq í eigu Brims og á Neskaupsstað er að rísa 380 tonna HPP verksmiðja sem er smíðuð fyrir Síldarvinnsluna,“ segir í tilkynningunni.

Sjálfstætt félag Héðins

HPP Solutions varð sjálfstætt dótturfélag Héðins um síðustu áramót en er nú orðið sjálfstætt félag að fullu leyti og eignarhlutir afhentir hluthöfum Héðins.

HPP próteinverksmiðjan er íslenskt nýsköpunarverkefni HPP sem var í þróun hjá Vélsmiðjunni Héðni í um fimmtán ár og sprettur beint upp úr langri reynslu fyrirtækisins í íslenskum sjávarútvegi. Sérstaða HPP próteinverksmiðja felst í því að þær taka um þriðjungi minni pláss en hefðbundnar fiskimjölverksmiðjur, eru með um 30 prósent færri íhlutum og eyða 30 prósent minni orku. Í skipum með HPP verksmiðju um borð fer ekki einn uggi til spillis. Aflinn er nýttur 100 prósent.

Tólf HPP verksmiðjur eru nú starfræktar víða um heim. Sex þeirra eru um borð í skipum og sex eru á landi, vinnslugetan er frá 10 til 400 tonnum á dag, eftir stærð verksmiðjanna,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×