Skoðun

Frá­bær dagur: Mario Götze, Ri­hanna og 26. febrúar 2017

Björn Teitsson skrifar

Flest okkar hafa vonandi upplifað alveg einstaklega góðan dag. Þið vitið, þegar allt gengur upp. Þið vaknið hress, lendið eingöngu á grænum ljósum og fáið jafnvel stöðuhækkun í vinnunni eða 10 í einkunn fyrir ritgerð. Kaffið gott og uppáhaldslagið ykkar með Eurythmics er spilað í útvarpinu. Fáið jafnvel falleg skilaboð frá maka eða skotinu ykkar. Kannski lasagna í matinn. Feitt.

Einhvern tímann las ég blaðagrein um þýska fótboltamanninn Mario Götze. Hann átti alveg sæmilegan dag í Ríó de Janeiro þann 13. júlí 2014 þegar landslið Þýskalands mætti Argentínu í úrslitaleik HM karla í fótbolta. Götze byrjaði að vísu á bekknum en hann kom inn á og skoraði sigurmarkið. Og ef það er ekki nóg þá mætti sjálf Rihanna, drottningin af Barbados, í sigurpartýið eftir leik til að djamma! Og í greininni sem ég las var sterklega gefið í skyn að ýmislegt hafi gerst… nemum staðar hér. Leyfum dónatalinu að dvelja fyrir norðan. En Götze átti þarna góðan dag.

Einhvern tímann átti ég í samræðum við nokkra vinnufélaga og við vorum að ræða þetta. Að eiga virkilega góðan dag. Fólk nefndi hitt og þetta. Stúdentsdagurinn auðvitað eða önnur útskrift, stórir áfangar skapa oftar en ekki góða daga. En svo kom ein uppástunga frá samstarfskonu minni: 26. febrúar 2017. Já, sögðum við, hvað gerðist þá? Það var nú ekkert sérstakt, svaraði hún, nema þennan dag þá vaknaði öll Reykjavík við blankalogn og sólskin og örugglega um 50 sentimetra af nýföllnum snjó. Kyrrðin var alger, engir bílar á ferð enda allir á kafi í snjó, og fyrr en varði var fólk tekið að labba úti á götunum, sömu götum og voru jafnan fullar af bílum og hraðri, háværri umferð, nema nú heyrðist aðeins í hlátrasköllum og marrinu í snjónum, ungir og gamlir Reykvíkingar, ferðafólk, hafði endurheimt göturnar sínar frá bílunum. Við hin sem hlustuðum vissum strax hvaða dag samstarfskona mín var að tala um. Og vorum öll sama sinnis. Auðvitað, 26. febrúar 2017. Það var frábær dagur! Munið þið eftir honum? Ég veit að þið gerið það.

Frá 26. febrúar 2017.

Því það er nefnilega staðreynd að borgir, sem slíkar, eru ekki háværar. Bílaumferð er hins vegar afar hávær. Og það eru til hundruð ef ekki þúsundir ritrýndra greina á alls konar fræðasviðum sem geta staðfest að bílaumferð, sérstaklega þung bílaumferð, er hættuleg heilsunni, bæði líkamlegri og andlegri. Til dæmis hér. Hér. Hér. Eða hér.

En þessi grein á ekki að vera um það. Hún á að vera um hamingjuna, hún á að vera um að fjölga þessum dögum okkar sem eru virkilega góðir. Því rétt eins og það er staðreynd að mikil bílaumferð er óholl, þá er staðreynd að virkir ferðamátar, að labba og að hjóla, eru einstaklega hollir. Ekki aðeins líkamlega, heldur einnig andlega. Þessi tafla er úr doktorsrannsókn bandaríska borgarfræðingsins Olivers Smith frá árinu 2013, einnig birt sem grein í fræðatímaritinu Journal of Transport and Health árið 2016, og sýnir hvernig ferðamátar við daglegar ferðir okkar til vinnu eða skóla, auka eða draga úr hamingju. Rannsóknin var framkvæmd í Portland í Oregon-ríki og er tekið tillit til mismunandi aðstæðna þátttakenda í rannsókn, svo sem aldurs, kyns, tekna og lengd ferða.

Á myndinni má sjá að fólk eykur beinlínis við hamingju sína við það að labba eða hjóla í vinnu eða skóla. Að taka strætó í sérrými (Borgarlína) virðist einnig auka nokkuð við hamingju en undir gildinu 1.0 eru ferðir með strætó, léttlest og allra neðst er, jú, einkabíllinn. Það sem er sérstaklega áhugavert er að þessi rannsókn var framkvæmd í janúar og febrúar árið 2012, um hávetur. Samt virtist fólk kunna best að meta það að hjóla og labba.

Og hvað þýðir þetta? Eigum við að banna einkabíla? Alls ekki. Bílar eru snilld. En ofnotkun á bílum er ekki snilld. Að láta allt samfélagið standa og falla með bílum, að bílpróf og bílaeign sé einhvers konar aðgöngumiði að eðlilegri mannlegri tilveru, það er einfaldlega of langt gengið. Bíll er lúxus, ekki mannréttindi.

Hér er þá tillaga: gerum það sem fólk vill helst gera. Förum eftir vilja fólksins. Hér má sjá niðurstöður úr könnun Maskínu um ferðavenjur sem hefur verið gerð fyrir Reykjavíkurborg undanfarin fjögur ár. Þátttakendur voru þar m.a. spurðir, hvernig þeir myndu helst vilja ferðast til vinnu og skóla, væru aðstæður í lagi og innviðir til þess ákjósanlegir (vel að merkja virtist fólk ekki telja veður vera fyrirstöðu þegar kom að því að ganga eða hjóla).

Eins og sjá má vilja flestir enn ferðast með einkabíl. En talan er mjög ásættanleg. Því í raun og veru eru um 74% allra ferða í Reykjavík farnar í einkabíl. Ef talan væri nær því sem fólk myndi helst vilja, væri hún aðeins 49,3% (bílstjórar + farþegar). Það er lækkun um 24% ferða sem farnar eru á einkabíl! Sem myndi þýða miklu umfangsminni og greiðari bílaumferð. Það þarf vart að taka fram að ekkert er betra fyrir bílaumferð en bílstjóri sem ákveður að fara frekar á hjóli eða í strætó. Um leið losnar um meira pláss fyrir alla aðra bíla í umferðinni. Þetta sér allt skynsamt fólk.

Í dag er Bíllausi dagurinn. Það er frítt í Strætó og það er fínt. Því er fullkomið tækifæri fyrir það fólk sem getur, að prófa Strætó, prófa að hjóla, prófa að labba til vinnu eða skóla. Og ef ykkur finnst það bærilegt, haldið endilega áfram. Þegar þið getið. Ef þið getið. En ef ykkur finnst innviðir og aðstæður ófullnægjandi, látið í ykkur heyra. Krefjumst þess að fá hágæðaalmenningssamgöngur og betri innviði fyrir gangandi og hjólandi. Það er skynsamlegasta fjárfestingin. Hún er ekki aðeins ódýrust, hún er líka best fyrir heilsuna, fyrir hamingjuna. Til að endurheimta göturnar okkar. Til að eiga fleiri GÓÐA daga.

Höfundur er sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×