Viðskipti innlent

Út­gerð Stefnis hætt og þrettán manns sagt upp

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skipið var smíðað árið 1976.
Skipið var smíðað árið 1976. H-G hf.

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. (H-G hf.) hefur ákveðið að hætta útgerð ísfisktogarans Stefnis ÍS 28 vegna samdráttar í úthlutuðu aflamarki þorsks. Þrettán manna áhöfn Stefnis verður sagt upp frá og með áramótum.

Þetta kemur fram á heimasíðu H-G hf. Þar segir að úthlutað aflamark í þorski hafi dregist saman um 23 prósent á síðustu tveimur fiskveiðiárum og hafi aflaheimildir félagsins dregist saman um tólf hundruð tonn við það. Þá hefur einnig orðið alvarleg skerðing í úthlutuðu aflamarki í gullkarfa sem hefur verið mikilvæg tegund í útgerð Stefnis.

Í tilkynningunni segir að með þessari aðgerð muni rekstrargrundvöllur annarra skipa félagsins styrkjast. Leitast verður leiða til að útvega áhöfn Stefnis vinnu á öðrum skipum H-G hf. eins og kostur er.

Stefnir ÍS 28 var smíðaður í Noregi árið 1976 fyrir Flateyringa og bar fyrst nafnið Gyllir ÍS 261. Skipið hefur verið gert út frá Ísafirði síðan árið 1993, tæp þrjátíu ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×