Handbolti

„Þeir verða alls ekkert fallbyssufóður í vetur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var ánægður með fyrri hálfleikinn gegn Herði en ekkert sérstaklega sáttur með þann seinni.
Snorri Steinn Guðjónsson var ánægður með fyrri hálfleikinn gegn Herði en ekkert sérstaklega sáttur með þann seinni. vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var skiljanlega sáttur með fyrri hálfleikinn gegn Herði enda unnu meistararnir hann, 22-9.

Í seinni hálfleik jöfnuðust leikar en sigur Valsmanna var aldrei í neinni einustu hættu og á endanum munaði tíu mörkum á liðunum, 38-28.

„Ég er mjög ánægður hvernig við mættum til leiks og með fyrri hálfleikinn. Við gerðum of mörg mistök og hefðum getað verið með meiri forystu en að sama skapi er ég ekkert ánægður með seinni hálfleikinn. Við duttum niður á of lágt plan en þetta eru tvö stig og það var ekkert meira í boði,“ sagði Snorri við Vísi í leikslok.

Valsmenn spiluðu 5-1 vörn í fyrri hálfleik með Aron Dag Pálsson fyrir framan. Það gaf góða raun og öflug vörn skilaði fimmtán hraðaupphlaupsmörkum í fyrri hálfleiknum.

„Ég reyni að spila báðar varnir og það var engin svakaleg pæling á bak við það. Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki mikið um þetta Harðarlið. Auðvitað hafði ég kynnt mér það og fengið hjálp við það en þetta er óþægilegur andstæðingur í þeirra fyrsta leik,“ sagði Snorri.

Harðarmenn áttu ekki möguleika í fyrri hálfleik en urðu betri eftir því sem á leið seinni hálfleikinn.vísir/hulda margrét

Hann var ekki á því að einbeitingin hefði fjarað út hjá Valsmönnum í seinni hálfleik. „Menn voru allir af vilja gerðir. En við notuðum uppstillingar sem við erum kannski ekki vanir að nota og gáfum mönnum tækifæri. Þetta riðlaðist aðeins en þeir voru bara betri og kannski búnir að hlaupa af sér hornin,“ sagði Snorri.

„Skrekkurinn var farinn og þeir sýndu líka góða takta. Við megum ekki taka það af þeim. Þeir verða alls ekkert fallbyssufóður í vetur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×