Körfubolti

Þjóðverjar í undanúrslit eftir öruggan sigur gegn Grikkjum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dennis Schröder var stigahæstur í liði Þjóðverja í kvöld.
Dennis Schröder var stigahæstur í liði Þjóðverja í kvöld. Stache/picture alliance via Getty Images

Þjóðverjar eru komnir í undaúrslit Evrópumóts karla í körfubolta eftir öruggan ellefu stiga sigur gegn Grikkjum í kvöld, 107-96.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og Þjóðverjar leiddu með fjórum stigum að loknum fyrsta leikhluta. Grikkir snéru taflinu þó við í öðrum leikhluta og náðu fjögurra stiga forskoti áður en flutað var til hálfleiks, staðan 57-61, Grikkjum í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þjóðverjar mættu hins vegar ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og má segja að liðið hafi tekið öll völd. Þeir þýsku skoruðu 26 stig í þriðja leikhluta gegn aðeins tíu stigum Grikkja og staðan því orðin 83-71, Þjóðverjum í vil, fyrir lokaleikhlutann.

Þjóðverjar héldu áfram að þjarma að Grikkjum framan af í fjórða leikhluta og náðu mest 22 stiga forskoti. Grikkir náðu þó að klóra í bakkann undir lokin, en skaðinn var skeður og niðurstaðan því ellefu stiga sigur Þjóðverja, 107-96.

Dennis Schroder var stigahæstur í liði Þjóðverja með 26 stig, en hann tók einnig þrjú fráköst og gaf átta stoðsendingar. Giannis Antetokounmpo var eins og svo oft áður atkvæðamestur í liði Grikkja með 31 stig, sjö fráköst og átta stoðsendingar.

Þjóðverjar eru því á leið í undanúrslit Evrópumótsins þar sem liðið mætir Spánverjum. Enn eru tvær viðureignir eftir í átta liða úrslitum þar sem Slóvenar mæta Pólverjum og Frakkar mæta Ítölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×