Skoðun

Ís­lensku­kennsla og kjara­samningar

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar

Smágrein sem ég skrifaði hér á föstudaginn hefur valdið meira uppþoti en ég hafði ímyndað mér, allt út af einni málsgrein: „Þess vegna væri upplagt að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á vandaðri íslenskukennslu í vinnutíma.“ Það er tæpast hægt að kalla þetta tillögu, fremur ábendingu eða hugmynd, enda þykist ég vita að kröfugerð hafi þegar verið mótuð eins og fram kom í greininni. En vegna þessa var ég kallaður elíta sem talaði úr fílabeinsturni og mér voru gerðar upp ýmsar ástæður og hvatir – sagður leggja fram „útsmogið rasískt útspil“, vera handbendi verkalýðsarms Samfylkingarinnar, og ég veit ekki hvað og hvað.

Þetta truflar mig svo sem ekki neitt. En ástæðan fyrir því að ég nefndi þessa hugmynd, sem annað fólk hefur reyndar nefnt á undan mér, er sú að ég er sannfærður um að það er mikilvægt fyrir erlent starfsfólk að læra íslensku til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu, og hef séð fjölmarga vitnisburði þess efnis. Það er t.d. vitað að margt vel menntað fólk er hér fast í láglaunastörfum sem tengjast menntun þess ekkert og getur ekki unnið við sitt fag vegna skorts á íslenskukunnáttu. Ég held hins vegar að það sé nokkuð almenn skoðun að íslenskukennsla sem fer fram að loknum löngum vinnudegi sé ekki vænleg til árangurs. Grundvallaratriði sé að kennslan fari fram á vinnutíma.

Eins og víða var nefnt í umræðunni hefði auðvitað verið hægt að beina kröfum um íslenskukennslu beint til ríkisins, í stað þess að tengja þær kjarasamningum. En ástæðan fyrir því að ég nefndi kjarasamninga í tengslum við þetta er sú að ef fólki á að vera heimilt að nýta hluta vinnutímans til íslenskunáms hlýtur það að verða að koma fram í kjarasamningi. Það þarf alls ekki að þýða, eins og víða er haldið fram, að verkalýðshreyfingin þyrfti þar með að lækka launakröfur sínar eða hverfa frá einhverjum öðrum kröfum. Það má vel hugsa sér að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur semdu um að fólki gæfist kostur á íslenskunámi í vinnutímanum en sendu svo ríkinu reikninginn. Annað eins hefur nú gerst.

Höfundur er uppgjafaprófessor í íslensku og málfarslegur aðgerðasinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×