Körfubolti

Sárafáir dæmi til að fá ellefu þúsund krónur

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Ernir Kristinsson hefur dæmt í efstu deildum í meira en áratug.
Ísak Ernir Kristinsson hefur dæmt í efstu deildum í meira en áratug. vísir/bára

Útborguð laun dómara fyrir leik í Subway-deildunum í körfubolta eru rétt rúmar ellefu þúsund krónur. Dómarar þurfa meðal annars að mæta á leikstað klukkutíma fyrir leik og starfinu fylgja ýmsar aðrar kvaðir sem ekki er greitt aukalega fyrir.

Á þetta bendir einn þekktasti körfuboltadómari landsins, Ísak Ernir Kristinsson, í pistli á Facebook. Þar vísar hann jafnframt í skrif Björgvins Inga Ólafssonar, formanns barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, sem kallar eftir því að dómurum og þjálfurum sé borgað „almennilega“.

Samningar á milli Körfuknattleikssambands Íslands og Körfuknattleiksdómarafélags Íslands eru lausir og Ísak segist vonast til þess að nýir samningar endurspegli betur vinnutímann og það vinnuframlag sem dómarar leggi á sig. Dómarar fái aðeins 20.200 króna verktakagreiðslu sem fyrir flesta launþega landsins þýði útborguð laun upp á 11.236 krónur.

„Ég er oft spurður hvort laun dómara séu ekki góð í úrvalsdeildum. Mitt svar er alltaf „ég er ekki að þessu fyrir peninginn“ sem er hverju orði sannara. Ég held raunar að það séu fáir ef nokkur sem dæmir vegna launanna,“ skrifar Ísak.

Og hann bendir á að ýmsar kröfur fylgi starfinu sem bæði kosti tíma og peninga. Til að mynda þurfi dómarar að standast 2-3 þrekpróf á hverju tímabili auk fleiri prófa, horfa á fyrri leiki liðanna sem þeir dæma hjá, sitja fundi og greiða kostnað vegna sjúkraþjálfunar og slysatrygginga.

Nýliðun í dómgæslu mikið vandamál

„Nýliðun í dómgæslu undanfarin ár hefur verið mikið vandamál,“ skrifar Ísak og bætir við: „Ég er að fara hefja mitt 11. tímabil í úrvalsdeild karla og 13. tímabil mitt í úrvalsdeild kvenna. Hópurinn hefur lítið sem ekkert stækkað þó hann hafi tekið breytingum.

Við höfum misst ungt og efnilegt fólk úr dómgæslu einkum af tveimur ástæðum:

1. Orðræða og umfjöllun um dómara getur stundum verið hörð og óvægin.

2. Laun dómara eru ekki sérstök fyrir það vinnuframlag sem þeir leggja fram.“

Ísak lýkur pistli sínum á því að segjast ekki vita hve lengi hann muni endast í dómarastarfinu. Hann bindi þó miklar vonir við að samningaviðræður KKÍ og KKDÍ sem nú standi yfir verði körfuboltanum til heilla, en skrif hans má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×