Skoðun

Nennum Nýsköpun

Svava Björk Ólafsdóttir skrifar

Nýsköpun er nauðsynleg, annars stöndum við í stað. Oft er talað um að krísa sé móðir tækifæranna og ýti undir að nýjar hugmyndir og aðferðir líti dagsins ljós, þá af nauðsyn. Í velmegun og stöðugleika eru vandamálin og áskoranirnar ekki alveg jafn aðkallandi. En við lifum svo sannarlega ekki á tímum stöðugleika þó svo við búum við öll heimsins gæði. Jörðin skelfur og brennur og átök geisa. Við erum mitt í stórri krísu og yfir okkur vofir loftslagsváin. Við þurfum nýjar lausnir, sem leysa af hólmi núverandi aðferðir, ferla og samfélagssýn sem eru á góðri leið að tortíma veruleikanum okkar.

Við erum svo heppin að vera rík af náttúrulegum auðlindum. Nýtum þær miklu betur og þróum skilvirkari aðferðir. Við fáum hins vegar engar nýjar hugmyndir og komum litlu í verk án verðmætustu auðlindarinnar, fólksins í landinu. Stöndum í lappirnar og nýtum sköpunarkraftinn sem býr innra með okkur, við verðum öll að vera hluti af lausninni. Nennum nýsköpun, hugsum út fyrir boxið og gerum hlutina öðruvísi - “við höfum alltaf gert þetta svona” er svo sannarlega ekki að virka.

Fræðum og þjálfum íslensku þjóðina í frumkvöðlafærni, skapandi hugsun og nýsköpun. Það þarf ekki einn nýsköpunaráfanga í skóla eða einn starfsdag með fókus á nýsköpun inn í fyrirtæki, þó það geti verið ágætis byrjun. Það þarf nýsköpun inn í alla króka og kima samfélagsins. Þvert á allt. Inn í leikskólana og grunnskólana, sorpmálin, Alþingi, hjúkrunarheimilin, orkumálin og heimilin í landinu. Því nýsköpun á heima alls staðar. Hún kemur okkur upp úr sama gamla farinu og við verðum öll að ýta bílnum, því hann er þungur og hefur setið lengi fastur.

Nýsköpun er ekki næs heldur nauðsyn og nú er kominn tími til að vera dramatísk. Ef ekki núna, hvenær þá? Veröldin okkar býr við mikla krísu og við þurfum að nýta hugvitið og drifkraftinn og hugsa í lausnum. Ímyndið ykkur heila þjóð með lausnamiðað hugarfar og óbilandi sköpunargleði. Við verðum óstöðvandi, eða í það minnsta náum mögulega að lifa af.

Nennum nýsköpun.

Höfundur er meðstofnandi RATA, Norðanáttar og Hugmyndasmiða og sérfræðingur í nýsköpun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×