Skoðun

Það sem vel er gert í ís­lenskri heil­brigðis­þjónustu

Unnur Berglind Friðriksdóttir skrifar

Umræðan síðustu mánuði og ár hefur snúist um mikið álag á heilbrigðisstarfsfólki, en lítið hefur farið fyrir því sem vel er gert innan heilbrigðiskerfisins. Þar með ætla ég alls ekki að gera lítið úr því sem betur má fara í heilbrigðisþjónustunni og því mikla álagi og undirmönnun sem þar er.

En aftur að þvi jákvæða og því sem vel er gert. Þar vil ég nefna störf ljósmæðra og að sú grunnþjónusta sem ljósmæður sinna er fjölskyldum að kostnaðarlausu. Mæðravernd, fæðingarhjálp og umönnun í sængurlegu.

Ljósmæður sinna mæðravernd á öllum heilsugæslustöðvum landsins, frá upphafi meðgöngu og fram að fæðingu. Milli skoðana er síðan hægt að fá símaráðgjöf frá ljósmæðrum. Fjölskyldur geta valið sér heilsugæslustöð (ef það er þeim landfræðilega mögulegt) og geta því valið sinn umönnunaraðila á meðgöngu. Þegar kemur að fæðingu geta fjölskyldur valið sér fæðingarstað alveg óháð sínum efnahag og sér að kostnaðarlausu. Hægt er að velja um að fæða heima, á fæðingarheimilum, ljósmæðrareknum deildum og á hátæknisjúkrahúsi. Allt eftir því hvar fjölskyldan upplifir sitt öryggi í fæðingu.

Meðganga og fæðing er náttúrulegt ferli í eðli sínu sem ljósmæður vilja styðja við og styrkja. En stundum er það þannig að eitthvað í heilsufari móður eða barns kallar á aukið eftirlit í meðgöngu og/eða í fæðingu sem getur leitt til aukinna rannsókna og inngripa. Í þeim tilvikum vinna ljósmæður náið með heimilislæknum og fæðingarlæknum. Við slíkar aðstæður er fjölskyldum alltaf ráðlagt að fæðing fari fram á hátæknisjúkrahúsi. Þar er þeirra öryggi best borgið.

Ef fjölskyldan upplifir erfiða fæðingarupplifun stendur til boða að fá úrvinnsluviðtal hjá ljósmóður á sinni heilsugæslustöð án kostnaðar.

Þegar kemur að sængurlegu geta fjölskyldur valið sér ljósmóður til að sinna þeim í heimaþjónustu sem felur í sér fimm til sjö vitjanir heim allt eftir þörfum og heilsufari móður og barns. Þessar vitjanir eru í boði allan ársins hring, einnig á stórhátíðardögum. Heilsugæslan tekur síðan við og sinnir ungbarnavernd. Fjölskyldan getur valið frá hvaða heilsugæslustöð þau fá þjónustu og aftur þeim að kostnaðarlausu.

Það góða aðgengi sem fjölskyldur hafa að ókeypis og öruggri þjónusta hér á landi hefur leitt til þess að mæðra – og ungbarnadauði hér á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Fyrir það getum við sem búum á Íslandi verið þakklát fyrir. Í raun getum við ekki borið okkur saman við lönd eins og t.d. Bandaríkin þar sem mæðra- og ungbarnadauði er á við það sem gerist í vanþróuðu ríkjunum.

Það eru forréttindi að fá að starfa sem ljósmóðir á Íslandi, þar sem allar fjölskyldur geta fengið góða faglega og örugga þjónustu í sínu nærumhverfi sér að kostnaðarlausu.

Að lokum vil ég benda á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embætti landlæknis heilsuvera.is þar sem finna má gagnlegt fræðsluefni og ráðleggingar (á íslensku, ensku og pólsku) en sú síða er í stöðugri þróun og uppfærslu.

Höfundur er formaður Ljósmæðrafélags Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×