Körfubolti

Giannis spilar með þremur bræðrum sínum í gríska landsliðinu á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo treður boltanum með tilþrifum í körfuna í leik Milwaukee Bucs og Boston Celtics í síðustu úrslitakeppni.
Giannis Antetokounmpo treður boltanum með tilþrifum í körfuna í leik Milwaukee Bucs og Boston Celtics í síðustu úrslitakeppni. EPA-EFE/KAMIL KRZACZYNSKI

Það verður nóg af Antetokounmpo á treyjum gríska körfuboltalandsliðsins á Evrópumótinu í körfubolta í næsta mánuði.

NBA stórstjarnan Giannis Antetokounmpo verður með gríska landsliðinu sem þýðir að fjórir bræður verða í tólf manna hópi Grikkja á mótinu.

Auk Giannis verða í liðinu Kostas Antetokounmpo, Thanasis Antetokounmpo og Alex Antetokounmpo. Thanasis er eldri (30 ára) en Giannis (27 ára) en hinir tveir, Kostas (24 ára) og Alex (21 árs) eru yngri.

Allir eru þeir yfir tvo metra en hæstir eru Kostas (211 sm) og Giannis (208 sm).

Giannis Antetokounmpo er náttúrulega einn allra besti leikmaður NBA-deildarinnar og hefur hann tvisvar verið kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar auk þess að vinna NBA-titilinn 2021.

Hann var með 29,9 stig, 11,6 fráköst og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili og er það því gríðarlegur liðstyrkur fyrir gríska landsliðið að hann sé til í að taka slaginn með liðinu á Eurobasket.

Riðill Grikkja fer fram í Mílanó á Ítalíu og þar mæta þeir Króatíu, Ítalíu, Bretlandi, Úkraínu og Eistlandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.