Skoðun

Þessi tilfinning

Jódís Skúladóttir skrifar

Ótti og skömm í bland við ást, þrá og skilningsleysi. Ég get ekki alveg skilgreint hvernig mér leið sem unglingi og ungri konu. Ég var ein. Ég þekkti enga aðra hinsegin manneskju og hvar sem hommar og lesbíur bárust í tal var það yfirleitt niðrandi og gróft kynferðislegt grín. Ég var bara venjuleg stelpa að alast upp í þorpi úti á landi. Ég var svo uppfull af áunninni skömm sem samfélagið nærði með dómhörku sinni, þögn og einsleitum staðalímyndum. Ég upplifði gríðarlega gjá milli mín og annarra því þó að fólk vildi mér vel var mín tilfinning alltaf að ég lifði í lygi. Ef ég segði þeim hver ég raunverulega væri og hvernig mér liði myndi fólk snúa við mér baki.

Hinseginleiki var ósýnilegur

Það að komast út úr þessum aðstæðum, finna rödd til þess að segja upphátt hver ég er tók mig langan tíma og þó ég vildi geta sagt að öll hafi tekið því vel væri það ekki satt. Mér var hafnað og ég upplifði útskúfun. Mín leið var að flýja aðstæður, annað hvort inn í óminnisástand áfengisneyslu eða með því að skipta um umhverfi, vinnu, vinahópa. En ég tók sjálfa mig alltaf með hvert sem ég fór og því gat ég ekki annað en horfst í augu við þá staðreynd að þar sem ég gæti ekki breytt mér yrði ég bara að breyta heiminum.

Frá þeirri stundu hef ég alltaf og alls staðar reynt að standa með sjálfri mér, hinsegin baráttunni og mannréttindum almennt. Ég var stundum hugsi yfir baráttunni, hvað áttu hommar og lesbíur yfir höfuð sameiginlegt, verandi gjörólíkir hópar með ólíka sýn og menningu? Af hverju ætti gagnkynhneigt fólk að vera skráð í baráttusamtök hinsegin fólks? Eftir því sem árin liðu kynntist ég fólki úr öllum kimum hinsegin samfélagsins og hópunum hefur fjölgað hratt. Sem betur fer lærði ég það á vegferð minni að það er meira sem tengir okkur saman en aðgreinir okkur Við eigum öll að njóta mannréttinda og virðingar í samfélaginu hver sem við erum og hvaðan sem við komum. Við þurfum sem samfélag öll að taka ábyrgð því þannig vinnast sigrar jaðarsettra hópa. Samfélagið er fullt af jaðarsettu fólki sem náð hefur mislangt í baráttu sinni en þar sem best hefur gengið hefur þjóðin sameinast um að standa með mannréttindum. Það þurfum við núna! Bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks innan lands sem utan er gríðarleg ógn og við verðum að snúa þeirri þróun við og vinna markvist að því að róa í rétta átt.

Ég vil benda á það að hér í okkar samfélagi, sem er talið framarlega og umburðarlynt að mörgu leyti, hér veigra mjög mörg sér við að gangast við sinni kynhneigð opinberlega. Fólk getur orðið fyrir útskúfun, aðkasti, ofbeldi og það í þessu opna og góða samfélagi sem við lifum í.

Þrátt fyrir áskoranirnar er fullt tilefni til þess að líta björtum augum fram á veginn

Það er mikið gleðiefni að Ísland hefur færst upp um fimm sæti á milli ára á regnbogakorti ILGA-Europe og áfram höldum við með aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022–2025 sem forsætisráðherra fékk samþykkta á seinasta þingi og tekur á mikilvægum réttarbótum fyrir hinsegin fólk. Stóraukið fjármagn til málaflokksins á undanförnum árum hefur líka skipt sköpum.

Það að ríkisstjórnin standi að réttlátum breytingum í þessum málaflokkum, tvö kjörtímabil í röð eru skýr merki um áhrif Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Við viljum gera betur og við höldum áfram að standa með hinsegin samfélaginu.

Gleðilega Hinsegin daga

Höfundur er þingmaður VG í Norðausturkjördæmi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×