Skoðun

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Fimmtudagar voru áður þekktir sem dagarnir sem sjónvarpið fór í frí. Það var að vísu fyrir mína tíð, en fimmtudagar halda þó áfram að setja mark sitt á frítíma fólks og í dag er fyrsti fimmtudagurinn þar sem opið verður til miðnættis í Laugardalslaug!

Fyrir sundáhugafólk eru þetta svo sannarlega gleðifréttir. Fyrir mig er þetta sérstaklega ánægjulegt. Hugmyndin um miðnæturopnun í sund kviknaði þegar klukkan var alveg að verða tíu eitt kvöld og ég þar með orðin of sein í sund enda fátt betra en að hefja daginn og enda með góðri sundferð. Í vor komst hugmyndin síðan inn á kosningastefnuskrá Framsóknar í Reykjavík og núna er hún orðin að veruleika.

Þó að hér sé ekki um að ræða stóran gjörning í stóra samhenginu þá felast í honum aukin lífsgæði. Sundlaugarnar hafa í gegnum tíðina verið samkomustaður Íslendinga og mörgum finnst fátt betra en að liggja í heita pottinum og slaka á. Núna fáum við aðeins meiri tíma til þess og getum tekið sundsprett um kvöld ef okkur sýnist svo. Þá fá að auki öll börn á grunnskólaaldri frítt í sund í Reykjavík frá og með 1. ágúst. s.l.

Hugmyndin um miðnætursund er ekki bara skemmtileg viðbót til afþreyingar og heilsubótar heldur líka áminning um að við öll getum haft áhrif á nærsamfélagið okkar með því að taka þátt. Ég vil því hvetja þig til að mæta á fundi stjórnmálaflokka og félagasamtaka til að segja frá því hvernig þú telur að bæta megi samfélagið okkar. Í krafti hugmynda og ólíkra sjónarmiða sem í fjöldanum finnast búum við saman til betra samfélag.

Það er glampandi sólskin í Reykjavík og því tilvalið að enda daginn í heitapottinum.

Sjáumst í sundi!

Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×