Viðskipti erlent

Verð­bólga á evru­svæðinu aldrei verið meiri

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Á sama tíma og verðbólga hefur aukist hefur hagvöxtur líka aukist á evrusvæðinu.
Á sama tíma og verðbólga hefur aukist hefur hagvöxtur líka aukist á evrusvæðinu. AP Photo/Matthias Schrader

Samræmd verðbólga innan evrusvæðisins hefur náð nýju hámarki, í 8,9 prósentum. Rekja má þessa miklu verðbólgu að hluta til hás orkuverðs vegna stríðs Rússa í Úkraínu. Þrátt fyrir þetta hefur hagvöxtur aukist lítillega á þessum öðrum ársfjórðungi. 

Verðbólgan á evrusvæðinu jókst úr 8,6 prósentum í júní upp í 8,9 prósent í júlímánuði samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu Evrópusambandsins. Verðbólgan hefur risið stöðugt á svæðinu undanfarna mánuði og hefur ekki náð svo miklum hæðum frá árinu 1997, þegar mælingar hófust á evrusvæðinu. 

Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti í síðustu viku, í fyrsta skipti í ellefu ár, og hefur boðað aðra hækkun í september. 

Þá hækkaði orkuverð í júlí um 39,7 prósent vegna fyrirhugaðs skorts á jarðgasi. Matvöruverð, verð á áfengi og tóbaki hefur sömuleiðis hækkað um 9,8 prósent. Það er meiri hækkun en í síðasta mánuði vegna aukins flutningskostnaðar, vöruskorts og óvissu um útflutningsafurðir Úkraínu, sem gjarnan hefur verið kölluð matarkista Evrópu.

Þrátt fyrir þetta hefur hagvöxtur aukist á sama tíma og jókst um 0,7 prósent milli ársfjórðunga. Hagvöxtur í Þýskalandi hefur staðið í stað en jókst um 0,5 prósent í Frakklandi, 1,1 prósent á Spáni og 1 prósent á Ítalíu. Þessi hagvöxtur er talinn boða gott og rekja megi hann að miklu leyti til ferðamannaflaums eftir að ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt.

Í Bandaríkjunum hefur hagvöxtur hins vegar dregist saman á síðustu tveimur ársfjórðungum sem vakið hefur upp áhyggjur um að kreppa sé í vændum. Samkvæmt frétt AP um málið er vinnumarkaðurinn hins vegar enn öflugri en hann var fyrir kórónuveirufaraldurinn og Jerome Powell, aðalhagfræðingur bandaríska Seðlabankans, dregið það í efa að kreppa sé á næsta leiti. 


Tengdar fréttir

Hægt sé að koma böndum á verðbólguna en allir þurfi að vera samstíga

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir það áhyggjuefni að búast megi við mikilli verðbólgu fram á næsta ár. Mikilvægt sé að vernda veikasta hópinn án þess þó að skapa íþyngjandi umhverfi fyrir fyrirtæki í landinu með skattahækkunum. Ljóst sé að allir aðilar þurfi að vera samstíga fyrir erfiðar kjaraviðræður í haust.

Staðan í þjóðar­bú­skapnum farin að minna á fyrri verð­bólgu­tíma

Almennur kaupmáttur gæti átt eftir að rýrna um allt að fimm prósent frá ársbyrjun og fram að gerð nýrra kjarasamninga fyrir næstu áramót að mati hagfræðings hjá Landsbankanum. Staðan í efnahagsmálum nú væri farin að minna á stöðuna eins og hún var fyrir gerð þjóðarsáttarsamninganna fyrir rúmlega þrjátíu árum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.