Skoðun

20.000 íbúðir til leigu – FRÍTT!

Jón Daníelsson skrifar

Ríkissjóður Íslands auglýsir til leigu 20.000 þriggja herbergja íbúðir.

Leigugjald er ekkert en leigjendur greiða kr. 20.000,- á mánuði fyrir rafmagn, hita og fráveitugjöld.

Leigjanda er heimilt að endurleigja íbúðina eða selja hana án afskipta ríkissjóðs.

Leigusamningurinn endurnýjast sjálfkrafa frá 1. september ár hvert.

Við fyrstu sýn virðist þetta kannski of gott til að vera satt, en það er ekki svo. Ríkissjóður Íslands leigir út ígildi 16-25 þúsund íbúða og leigjendurnir þurfa ekki einu sinni að borga fullt gjald fyrir þjónustu á borð við hita, rafmagn og þess háttar.

Jú, jú, auðvitað er ég að tala um aflaheimildirnar. Ef ríkið ætti 20.000 íbúðir og leigði þær út fyrir 200.000 á mánuði hverja, myndi sú leiga skila 4 milljörðum á mánuði eða 48 milljörðum á ári. Og það er sennilega heldur vægt leigugjald fyrir aflaheimildirnar sem sjálfkrafa endurnýjast á hverju ári.

Ólafur Arnarson fer ágætlega yfir meginþættina í fréttaskýringu og viðtölum í Fréttablaðinu. Þar kemur m.a. fram að svonefnd auðlindarenta (eðlileg kvótaleiga) sé á bilinu 40 til 60 milljarðar á ári. Það samsvarar 16 til 25 þúsund leiguíbúðum, sem margar hverjar eru nú til dags leigðar á miklu meira en 200 þúsund á mánuði.

Á síðasta ári bættu útgerðarfyrirtækin við sig hreinni eign upp á 100 milljarða. Ef við höldum áfram að tala í íbúðum, samsvarar þetta því að úterðirnar hafi endurleigt hverja einustu íbúð á meira en 400.000 á mánuði. Útgerðin fær því nokkuð góðan díl. Það verður að segjast.

Áður en þessir 100 milljarðar komu í hús var bæði búið að greiða venjulegan tekjuskatt (20%) af innkomunni og borga heila 4,8 milljarða í veiðigjöld. Yfirfært á íbúðirnar samsvara veiðigjöldin 20 þúsundum á mánuði fyrir rafmagn, hita og fráveitu. En að vísu er mér sagt að þessir 4,8 milljarðar dugi ekki fyrir útlögðum kostnaði ríkissjóðs vegna þjónustu við sjávarútveginn. Útgerðin er sem sagt rekin með dálitlum styrk úr ríkissjóði.

Sjálfum þætti mér bara nokkuð huggulegt að leigja 20.000 láglaunafjölskyldum íbúðir fyrir ekki neitt. En vera má að hæstvirtum ráðherrum þætti það sóun á verðmætum.

Höfundur er fyrrverandi hitt og þetta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×