Körfubolti

Ákærður fyrir að ráðast á eiginkonu sína fyrir framan börnin

Sindri Sverrisson skrifar
Miles Bridges hefur verið ákærður.
Miles Bridges hefur verið ákærður. Getty/Todd Kirkland

Körfuboltamaðurinn Miles Bridges, leikmaður Charlotte Hornets, hefur verið ákærður fyrir að ráðast á eiginkonu sína fyrir framan börn þeirra tvö í síðasta mánuði.

Ákæran er í þremur liðum og segir saksóknarinn í Los Angeles, George Gascon, að hún snúi að ofbeldi gegn barnsmóður og illri meðferð á börnum í aðstæðum sem valdið gátu miklum líkamlegum áverkum eða jafnvel dauða.

Eiginkona Bridges, Mychelle Johnson, birti myndir af sér á Instagram í lok júní þar sem sjá mátti áverka sem Bridges veitti henni. Hún lýsti ofbeldinu í löngu máli og sagðist ekki þurfa neina samúð en að börn hennar ættu betra skilið.

„Það er glatað að þetta sé komið á þetta stig en ég get ekki þagað lengur. Ég hef leyft honum að leggja heimili mitt í rúst, misþyrma mér á allan mögulegan hátt og hræða líftóruna úr börnunum okkar,“ skrifaði Johnson meðal annars.

Bridges á að mæta fyrir rétt í Los Angeles í dag en hann var handtekinn af lögreglu í borginni þann 29. júní en í kjölfarið sleppt gegn 130.000 Bandaríkjadala tryggingu.

Talsmenn Charlotte Hornets og NBA-deildarinnar hafa sagt að þeir séu upplýstir um ákæruna og muni fylgjast með þróun mála.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.