Skoðun

Lífsviðhorf í vöggugjöf

Inga Straumland skrifar

Í síðustu viku bárust þær fréttir úr Borgartúni 21 að í fyrsta skipti síðan Þjóðskrá hóf að halda utan um trúfélagsaðild Íslendinga, hafi hlutfall íbúa þessa lands sem skráð eru í Þjóðkirkjuna farið undir 60%. Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, sagðist litlar áhyggjur hafa á frjálsu falli meðlimafjöldans í haust, eiginlegt kjörfylgi Þjóðkirkjunnar væri um 60% og þar myndi meðlimafjöldinn staðnæmast. Hvort Sindri hafi rétt fyrir sér verður tíminn að leiða í ljós, en persónulega finnst mér raunar ólíklegt að svona hátt hlutfall trúi raunverulega á sköpunarsöguna og kraftaverk, eða séu yfir höfuð meðvituð um aðild sína að Þjóðkirkjunni.

Áhugamálin sem erfast ekki alltaf

Þegar ég var nýfætt kríli, sem hafði nýhrist af sér allar snúrurnar í hitakassanum og tekist á við guluna, komu tvær ungar konur heim til mín og nýbakaðra foreldra minna, með skírteini upp á lífstíðaraðild að Ungmennafélagi Bessastaðahrepps, sem faðir minn hafði verið virkur í um árabil. Og rétt eins og fjögurra ára sonur minn hefur aðallega áhuga á bílum og vinnuvélum, þó móðir hans sé stjórnarmeðlimur í Samtökum um bíllausan lífsstíl, þá kom kannski fljótlega í ljós að ég yrði varla afreksíþróttakona eða neins konar forkólfur í ungmennafélagsstarfi. Eina keppnisgreinin sem ég gæti mögulega skarað fram úr í, væri skapandi borðskreytingar, sem raunar var keppnisgrein á landsmótum UMFÍ um áratugabil.

Vöggugjöfin sem entist ekki

En ungmennafélagsaðildin var ekki eina félagsaðildin sem ég fékk í vöggugjöf. Líkt og stór hluti þjóðarinnar var ég umsvifalaust skráð í það trúfélag sem móðir mín tilheyrði, án þess að foreldrar mínir gæfu nokkurn tíman heimild til þess. Og rétt eins og með ungmennafélagsandann, sem aldrei helltist yfir mig, skipti ég út kennisetningum kristninar á kynþroskanum, fyrir kennisetningarnar í örlítið nútímalegri skáldsögu en þeirri sem kristin trú byggir á; Harry Potter. Ég hef síðan þá reyndar slaufað þeim bókaflokki alveg jafnharkalega og testamentunum, enda hef ég enga þolinmæði fyrir hinseginfóbíu af nokkru tagi.

Skoðanamótandi formæður

Það er nefnilega þannig að af þeim 228.298 íbúum þessa lands sem tilheyra enn Þjóðkirkjunni, fékk stór hluti þeirra aðildina í vöggugjöf. Þó að reglurnar hafi breyst, og nú þurfi bæði foreldri að vera skráð í sama lífsskoðunarfélagið, veraldlegt eða trúarlegt, til þess að barn sé skráð í téð félag en ekki utan trúfélaga, þá byggjast þær ennþá á þeirri forsendu að það sé í lagi að ríkið ákveði félagsaðild barns, án þess að spyrja foreldrana eða jafnvel barnið sjálft. Þannig hefur stærsta félagið, sem hefur lengstu söguna og langmestu forréttindin, kerfisbundið fengið til sín sóknarbörn á grundvelli trúfélags formæðra þeirra. Og fjöldi meðlima skiptir nefnilega gríðarlegu máli fyrir félögin, því á þeim byggjast upphæðir þeirra sóknargjalda sem ríkið ráðstafar úr vasa skattgreiðanda og til lífsskoðunarfélaganna.

Erum við öll á réttum stað?

Þær upphæðir sem trú- og lífsskoðunarfélögin fá fyrir hvert og eitt sóknarbarn á sínum lista, hlaupa á milljónum fyrir mörg félög, en milljörðum fyrir eitt þeirra: Þjóðkirkjuna. Ríkið greiðir 1.107 krónur á mán­uði á hvern ein­stak­l­ing frá 16 ára aldri, í hverju félagi fyrir sig. Fyrir öll þessi sóknarbörn, sem mörg hafa verið skráð sjálfkrafa í Þjóðkirkjuna við fæðingu, fær ríkistrúfélagið því um tvo og hálfan milljarð í stuðning frá ríkinu. Einstaklingar eru aldrei beðnir um að staðfesta vilja sinn til að tilheyra einu trúfélagi frekar en öðru—eða bara einhverju þeirra yfir höfuð—og því er ómögulegt að segja hvort öll þau sem tilheyra aldagömlum félögum vilji endilega vera í akkúrat því trúfélagi. Þá hlýtur það að teljast í meira lagi óeðlilegt, og tæplega í takt við nútímakröfur um persónuvernd þar sem upplýst samþykki er meginstefið, að hvítvoðungar séu skráðir í félög að þeim eða foreldrum þeirra forspurðum.

Núllstillum trúfélagsskráningu

Það væri því langsamlega sanngjarnast fyrir okkur öll, sem viljum réttláta úthlutun fjár úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar og aðhyllumst raunverulegt trúfrelsi, að núllstilla einfaldlega trúfélagsskráningu þjóðarinnar hjá Þjóðskrá. Væri núllstillingin kynnt vel, gæti fólk svo umsvifalaust skráð sig aftur í það félag sem það vill helst tilheyra, enda tekur það ekki nema örfáar mínútur á skra.is. Með uppfærslunni gætum við verið alveg viss um að sóknargjöldin séu að rata á réttan stað og gætum svo í kjölfarið skoðað það að leiðrétta óréttlæti á borð við trúfélagsskráningu ómálga barna, ákvæði um eina ríkistrú og auðvitað sjálft kirkjujarðasamkomulagið, óhagstæðasta samning Íslandssögunnar. Því ef við trúum því raunverulega að hver einasti meðlimur hvers einasta trúfélags sé þar af fúsum og frjálsum vilja, þá rata lömbin væntanlega strax aftur heim.

Höfundur er formaður Siðmenntar, alls engin íþróttakona og fyrrverandi Harry Potternörd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×