Viðskipti innlent

Ósamræmi í lögum því sjávarútvegur sker sig frá öðrum greinum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri segir ósamræmi í löggjöf um tengda aðila.
Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri segir ósamræmi í löggjöf um tengda aðila. Vísir/Bjarni

Fiskistofustjóri segir ósamræmi í löggjöf milli atvinnugreina um skilgreiningu á tengdum aðilum. Fyrirtæki teljast ráðandi aðilar með mun lægra eignarhlutfall í flestum öðrum greinum en í sjávarútvegi.

Með kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík á Samherji aðild að fimmtungi heildarveiðiheimilda í landinu. Lögbundið viðmið er tólf prósent. Fyrirtækið telst hins vegar ekki tengdur aðili að kaupunum samkvæmt lögum þar sem Samherji á einn þriðja hlut í Síldarvinnslunni en hefði þurft að eiga helming til að flokkast sem tengdur aðili.

Skilgreining á tengdum aðilum er hins vegar mun lægri í öðrum greinum en í sjávarútvegi, eins og til dæmis á fjármálamarkaði. Þar teljast til tengdra aðila fari hlutdeild þeirra yfir tuttugu prósent. 

Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri segir viðmiðið í sjávarútvegi hátt. 

„Miðað við aðrar atvinnugreinar er þetta frekar hátt hlutfall.  Menn teljast ráðandi aðilar með mun lægra eignarhlutfall heldur en þetta annars staðar. Það má kannski segja að það sé eitthvað ósamræmi í löggjöfinni varðandi þetta“ segir Ögmundur.

Það sé stjórnvalda að samræma löggjöfina.

„Það er alfarið á þeirra borði að breyta fiskveiðilöggjöfinni þannig að þessi mörk verði færð neðar,“ segir hann.

Hann segir kaup Síldarvinnslunnar á Vísi undir viðmiðum fiskveiðilaga um heildarkvóta en sameinað fyrirtæki fari nú með ríflega ellefu prósent hans. 

„Samkvæmt fiskveiðistjórnunarlöggjöfinni sýnist okkur ekki vera neitt sem hindrar þessi kaup. Samkeppniseftirlitið á hins vegar eftir að úrskurða í málinu,“ segir Ögmundur. 

Oddný G. Harðardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar segir löngu tímabært að breyta lögum um fiskveiðstjórnun en hagsmunaöflum hafi hingað til tekist að stöðva það.

„Stórútgerðin er bara of áhrifamikil í samfélaginu og hefur of sterk ítök í stjórnkerfinu,“ segir Oddný. 

Hún segir núverandi kerfi afar ósanngjarnt. 

„Við erum að færa stórútgerðinni, sem malar gull,  auðlindina okkar á silfurfati.“


Tengdar fréttir

Hvert barn fær um 3,3 milljarða í sinn hlut fyrir Vísi

Síldarvinnslan í Neskaupsstað hefur keypt allt hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík. Kaupverðið er tuttugu milljarðar króna og yfirtekin lán ellefu milljarðar króna. Eigendur Vísis fá sex milljarða greitt í reiðufé og eignast átta prósenta hlut í Síldarvinnslunni





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×