Körfubolti

Utah Jazz til­búið að hlusta á til­boð í Donovan Mitchell

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Donovan Mitchell gæti verið á förum frá Utah.
Donovan Mitchell gæti verið á förum frá Utah. Alex Goodlett/Getty Images

Kevin Durant setti alla NBA-deildina í körfubolta í uppnám þegar hann tilkynnti að hann vildi yfirgefa Brooklyn Nets fyrir komandi leiktíð. Nú er nær öll lið deildarinnar til í að íhuga að skipta sínum bestu leikmönnum í von um að fá Durant í sínar raðir, Utah Jazz þar á meðal.

Donovan Mitchell er án efa besti leikmaður Jazz en liðið endaði í 5. sæti Vesturdeildar á síðustu leiktíð og féll svo úr leik gegn Dallas Mavericks í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þessi 25 ára gamli skotbakvörður hefur verið aðalmaðurinn í Utah undanfarin ár og hafði félagið gefið út að hann væri ósnertanlegur, þangað til nú.

Adrian Wojnarowski, maðurinn sem allt veit er kemur að NBA-deildinni, greindi frá nýverið að Jazz væri tilbúið að skoða markaðinn. Framkvæmdastjóri félagsins, Justin Zanik, sagði í viðtali að NBA-deildin væri alltaf að þróast og að hann gæti ekki sagt að einhver einn leikmaður væri ósnertanlegur. 

Zanik tók þó fram að félagið væri ekki markvisst að reyna skipta Mitchell út en samkvæmt Wojnarowski er Jazz tilbúið að skoða tilboð ef þau berast. Í raun er Utah til í að skoða skipti á hvaða leikmanni liðsins sem er en það sannaðist þegar Rudy Gobert var skipt til Minnesota Timberwolves. Má færa ágætis rök fyrir því að hann hafi verið næstbesti maður Utah en hann er nú horfinn á braut.

Sama hvað er ljóst að það á nóg eftir að gerast á leikmannamarkaði NBA-deildarinnar. Verður einkar forvitnilegt að sjá hvað verður um Kevin Durant sem og Donovan Mitchell. Sá síðarnefndi skoraði að meðaltali 26 stig í leik á síðustu leiktíð ásamt því að gefa 5 stoðsendingar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×