Matur

Nokkrum Ís­lendingum boðið á Michelin-verð­launa­at­höfnina

Árni Sæberg skrifar
Frá vinstri: Agne Petkeviciute, Guðgeir Ingi Kanneworff Steindórsson, Rúnar Pierre Heriveaux yfirkokkur á ÓX og Þráinn Freyr Vigfússon stofnandi og einn eigenda ÓX. Þeir Rúnar og Þráinn eru staddir í Stafangri.
Frá vinstri: Agne Petkeviciute, Guðgeir Ingi Kanneworff Steindórsson, Rúnar Pierre Heriveaux yfirkokkur á ÓX og Þráinn Freyr Vigfússon stofnandi og einn eigenda ÓX. Þeir Rúnar og Þráinn eru staddir í Stafangri. Aðsend

Nýr Michelin-leiðarvísir verður kynntur við hátíðlega athöfn í Stafangri í Noregi í dag. Þá kemur í ljós hvaða veitingastaðir á Norðurlöndum hljóta hina eftirsóttu Michelin-stjörnu. Eigendur tveggja íslenskra veitingahúsa hafa fengið boð á athöfnina.

Vísir frétti af því að Þráinn Freyr Vigfússon, stofnandi og einn eigenda ÓX á Laugarvegi, hefði lagt land undir fót um helgina og farið til Stafangurs. Í samtali við Vísi staðfesir Þráinn að hann sé í Noregi og ástæðan sé einföld; hann fékk boð á Michelin-athöfnina í kvöld.

Þráinn Freyr hefur komið víða við í íslenska veitingabransanum. Um þessar mundir rekur hann ÓX, Sumac og Silfru.Aðsend

Hann er ásamt samferðafólki sínu spenntur fyrir kvöldinu en bendir þó á að boð á athöfnina þýði ekki endilega að ÓX fái stjörnuna eftirsóttu. Það komi ekki í ljós fyrr en eftir að tilkynnt hefur verið um val dómnefndarinnar.

Fari allt á besta veg fyrir Þráin og félaga mun ÓX verða annar veitingastaðurinn hér á landi sem hlýtur Michelin-stjörnu. Fyrir er veitingastaðurinn Dill með eina stjörnu. 

Vísir hefur einmitt öruggar heimildir fyrir því að Gunnar Karl Gíslason, yfirkokkur og einn eigenda Dill, sé einnig í Stafangri og hafi fengið boð á athöfnina í kvöld. Gunnar Karl hefur tvisvar farið utan og komið heim með stjörnu fyrir Dill, því er spennandi að sjá hvort honum takist að endurnýja stjörnuna sem hann tók með heim í fyrra.

Gunnar Karl Gíslason er stofnandi og einn eigenda Dill, fyrsta íslenska veitingastaðarins sem hlaut Michelin-stjörnu.Aðsend

Fylgjast má með athöfninni í beinni útsendingu hér að neðan en hún hefst klukkan 16:00.


Tengdar fréttir

Dill fær Michelin-stjörnu á ný

Veitingastaðurinn Dill á Laugavegi var rétt í þessu að endurheimta Michelin-stjörnu sína, en slíkar stjörnur eru veittar þeim veitingastöðum sem taldir eru skara fram úr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×