Skilaði hann 20 stigum, 11 fráköstum og þremur vörðum boltum. Framlagsstigin voru 31, sem var það langhæsta sem sást á vellinum.
Hvernig leið Tryggva inni á vellinum?
„Mér leið bara mjög vel. Satt best að segja þá hafði ég aldrei áhyggjur, eða svona næstum því. Við ætluðum að vinna þennan leik og mér leið vel. Það er náttúrulega alltaf verið að berjast við mig og ég bara tek því vel því það opnar oftast á leikmenn fyrir utan og gefur öðrum séns á að gera betur og skjóta. Við skutum illa í byrjun en náðum að rífa það upp í seinni hálfleik og allt í allt fannst mér við spila vel og ég er bara mjög sáttur með strákana.“
Það mætti kannski segja að þetta hafi verið eins og hver annar dagurinn á skrifstofunni fyrir Tryggva þó svo að allir hávöxnustu menn Hollands hafi mætt í teiginn í kvöld til að berja á honum?
„Ég bara tek því eins og hverjum öðrum degi. Ég slæ aldrei hendinni á móti því að berjast pínu, ég hef bara gaman af því, þó þeir séu margir sem reyna þá verð ég bara að endast lengur en þeir og halda áfram allan leikinn.“

Glæsilegur endurkomusigur niðurstaðan, en það leit ekki vel út á tímabili. Kom það aldrei til greina að gefast hreinlega upp?
„Nei! Við náttúrulega gefumst aldrei upp. Þó svo að þeir hafi verið að vinna okkur á þeim tímapunkti þá vissum við alveg að við ættum inni meiri orku. Við þurftum bara að komast á eitt gott „run“ og taka á þeim. Jú jú, það var leiðinlegt að vera undir þarna í byrjun og við misstum aðeins stemminguna en við erum mjög góðir að þjappa okkur saman, rífa okkur í gang og byrja uppá nýtt. Við gerðum það þarna í byrjun seinni hálfleiks og settum tóninn bara strax.