Innherji

Ingólfur hættir sem forstjóri CRI, leita að alþjóðlegum stjórnenda

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ingólfur Guðmundsson

Ingólfur Guðmundsson hefur látið af störfum sem forstjóri Carbon Recycling International (CRI) og leitar íslenska tæknifyrirtækið nú að alþjóðlegum stjórnanda til að taka við keflinu. Þetta staðfestir Þórður Magnússon, stjórnarformaður CRI, í samtali við Innherja.

„Þýðingarmikill árangur hefur náðst á síðustu árum sem rennir stoðum undir frekari vöxt. Þessi breyting kemur á réttum tíma og við erum sannfærð um að stjórnendateymið hafi reynslu, þekkingu og styrk til að brúa bilið til næsta fasa,“ segir Þórður. 

Ingólfur, sem er rekstrarhagfræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari, var ráðinn forstjóri CRI sumarið 2019. Björk Kristjánsdóttir, fjármálastjóri fyrirtækisins, gegnir stöðu forstjóra þangað til ráðningarferlinu er lokið.

CRI er brautryðjandi í þróun búnaðar til að framleiða fljótandi eldsneyti og efnavöru úr vetni og koltvísýringi. Heildartekjur á síðasta ári námu rúmlega 7,2 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 930 milljónir króna, og jukust um 2,2 milljónir dala frá 2020. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA), þegar búið er að leiðrétta fyrir kostnaði vegna kauprétta og vinnu við skráningu á markað, var rúmlega 700 þúsund dalir og minnkaði um meira en milljón dali á milli ára.

Á aðalfundi CRI í fyrra var samþykkt að hefja undirbúning að skráningu á markað í Noregi en stefnt var að því að sækja um 20 til 30 milljónir dala í nýtt hlutafé. Versnandi markaðsaðstæður urðu hins vegar til þess að fyrirtækið hvarf frá áformunum.

„Í ljósi efnahagsaðstæðna og hættunnar á áframhaldandi óróa á hlutabréfamörkuðum var í kjölfarið ákveðið að skráning á markað á þessum tímapunkti myndi ekki vera fýsileg,“ sagði í ársreikningi CRI sem Innherji greindi nýlega frá. Unnið að öðrum leiðum til að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins og er gert ráð fyrir að þeirri fjármögnun ljúki síðar á árinu.

Í mars í fyrra náðist samkomulag við Eyrir Invest, sem er meðal annars stærsti hluthafi Marels með tæplega fjórðungshlut, um að fjárfesta í CRI fyrir um 10 milljónir dala í því skyni að tryggja endurgreiðslu lána sem voru á gjalddaga á árinu 2021. Fjárfesting Eyris var gerð í gegnum dótturfélagið Grænt Metanól sem er í dag næst stærsti hluthafi CRI með tæplega níu prósenta hlut en Þórður Magnússon er aðaleigandi Eyris ásamt syni sínum Árna Oddi Þórðarsyni.

Skömmu síðar ákvað alþjóðlega fjármálastofnunin Nordic Green Bank (Nefco) að breyta 390 milljóna króna láni sínu til CRI í hlutafé og fer núna með 3,3 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Fyrirtækið hefur síðustu tvö ár unnið að hönnun efnaverksmiðju sem verður gangsett síðar á árinu í Anyang í austurhluta Kína. Verkefnið byggir á tækni CRI og mun draga úr losun á 160.000 tonnum af koltvísýringi árlega.

Þá hefur CRI einnig unnið með orkufyrirtækinu Statkraft að sameiginlegri verkefnaþróun og fjárfestingu í nýrri verksmiðju í Finnfjord í norðurhluta Noregs. Stefnt er að því að framleiðslugeta þeirrar verksmiðju verði um 25 sinnum meiri en í fyrstu verksmiðju CRI, sem reist var í Svartsengi, eða sem nemur 100 þúsund tonnum á ári.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.