Körfubolti

Russell Westbrook sagði já við rúmum sex milljörðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook á góðri stundu með LeBron James en þeir spila áfram saman á næsta tímabili svo framarlega sem Lakers nær ekki að skipta Russell til annars félags.
Russell Westbrook á góðri stundu með LeBron James en þeir spila áfram saman á næsta tímabili svo framarlega sem Lakers nær ekki að skipta Russell til annars félags. APRingo H.W. Chiu

Það kemur kannski ekki mörgum á óvart en í gær varð það ljóst að Russell Westbrook ætlar að nýta sér ákvæði í samningi sínum sem færir honum 47,1 milljónir dollara fyrir NBA-tímabilið 2022-23.

Westbrook átti ekki gott tímabil og örugglega ekki tímabil í samræmi við þann pening sem hann fékk fyrir að spila. Los Angeles Lakers borgaði honum rúma 44 milljónir dollara á síðasta tímabili og þarf nú að borga honum 47 milljónir næsta vetur.

Samningurinn sem Westbrook skrifaði undir þegar hann var leikmaður Oklahoma City Thunder árið 2017, hefur færst á milli félaga því Thunder skipti honum til Houston Rockets sem skipti honum til Washington Wizards sem loks skipti honum til Los Angeles Lakers.

Það er ljóst að þessi risasamningur Westbrook gerir Lakers mun erfiðara fyrir að semja við nýja leikmenn fyrir komandi leiktíð.

Nú er það undir Darvin Ham, nýjum þjálfara Los Angeles Lakers, að ná meiri úr Westbrook sem var með 18,5 stig, 7,4 fráköst og 7,1 stoðsendingu í leik á síðasta tímabili. Ekki svo sem slæmar tölur en það var 29,8 prósent þriggja stiga nýting og 3,8 tapaðir boltar í leik sem fór meira fyrir brjóstið á mönnum.

Lakers vann aðeins 33 leiki á síðustu leiktíð og tapaði 49. Liðið vann hins vegar 11 af 21 leik þegar Westbrook, LeBron James og Anthony Davis voru allir með.

Westbrook var valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar tímabilið 2016-17 og skrifaði í framhaldi undir fimm ára framlengingu á samningu sínum sem skilaði honum 205 milljónum dollara eða meira 27 milljarða í íslenskum krónum.

Westbrook er eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur náð fleiri en einu tímabili með þrennu að meðaltali í leik en því hefur hann náð á fjórum tímabilum (2016-17, 2017-18, 2018-19 og 2020-21).

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×