Körfubolti

Böðvar rifar seglin eftir sautján ár í stjórn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Böðvar Guðjónsson stýrði körfuboltaskútunni hjá KR á mesta blómaskeiði félagsins.
Böðvar Guðjónsson stýrði körfuboltaskútunni hjá KR á mesta blómaskeiði félagsins. vísir/vilhelm

Eftir að hafa verið í stjórn körfuknattleiksdeildar KR í sautján ár, lengst af sem formaður, hefur Böðvar Guðjónsson ákveðið að láta staðar numið.

„Ég er að leggja skóna á hilluna,“ sagði Böðvar í samtali við Vísi í morgun.

Boðað hefur verið til auka aðalfundar körfuknattleiksdeildar KR á morgun. Þar verður ný stjórn og nýr formaður deildarinnar kosinn. Bjarni Guðjónsson, framkvæmdastjóri KR, staðfesti við Vísi að formannsframboð hefði borist.

Aðspurður um tímasetninguna á auka aðalfundinum sagði Böðvar að hinn venjulegi tími hans passaði illa við dagatal körfuboltans, það er að hann færi fram á meðan tímabilið væri enn í gangi.

„Undanfarin ár hef ég reynt að yngja stjórnina upp og nú tekur nýtt fólk við. Það er eðlilegasti hlutur í heimi,“ sagði Böðvar sem hefur setið í stjórn körfuknattleiksdeildar KR síðan 2005.

Á tíma hans í stjórninni varð karlalið KR níu sinnum Íslandsmeistari, þar af sex sinnum í röð, og þrisvar sinnum bikarmeistari. Kvennalið KR varð einu sinni Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.

Karlalið KR varð Íslandsmeistari sex ár í röð (2014-19).vísir/daníel

En hvað ætlar Böðvar að gera við allan þann tíma sem losnar þegar hann er hættur í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar?

„Ég mæti áfram. Ég hlakka bara til að fá mér hamborgara fyrir leiki og fylgjast með liðinu,“ svaraði hann. Böðvar segist skila af sér ágætis búi þótt hann viðurkenni að róðurinn undanfarin misseri hafi verið þungur vegna kórónuveirufaraldursins.

Fyrr í þessum mánuði bárust til að mynda fréttir af því að KR hefði ekki greitt skráningargjald til KKÍ á réttum tíma, eða tíu dögum eftir að fresturinn rann út. Fyrir vikið þurfti KR að greiða tæplega hálfa milljón aukalega til KKÍ.

„Þetta er ekkert auðvelt. Við fáum ekki styrki frá Reykjavíkurborg og þurfum því að safna pening sjálf,“ sagði Böðvar.

Karlalið KR endaði í 8. sæti Subway-deildarinnar á síðasta tímabili og tapaði 3-0 fyrir Njarðvík í átta liða úrslitum. Kvennalið KR lenti í 3. sæti 1. deildar og tapaði fyrir ÍR, 3-2, í umspili um sæti í Subway-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×