Skoðun

Af hverju bjóðum við okkur fram í aðal­stjórn SÁÁ

Elísabet Dottý Kristjánsdóttir og Erla Björg Sigurðardóttir skrifa

Við stöllur bjóðum fram krafta okkar í aðalstjórn SÁÁ vegna þess að við viljum að starfsemi samtakanna sé áfram í þágu vímuefnasjúkra og fjölskylda þeirra eins og verið hefur hingað til. Megin tilgangur samtakanna hefur verið frá stofnun þeirra að útrýma fordómum gagnvart vímuefnasjúkdómum og starfrækja sjúkrahús, inniliggjandi eftirmeðferð, göngudeild og félagsleg úrræði. Samtökin eru almannasamtök og stofnuð af öflugum frumkvöðlum sem höfðu fengið lausn á sínum vanda í Bandaríkjunum og við þekkjum öll söguna síðan. Stjórnarhættir núverandi stjórnar samrýmast ekki lögum samtakanna og sem hefur gert þau að lokuðum hagsmunasamtökum starfsmanna í stað opinna grasrótarsamtaka sem berjast fyrir hagsmunum vímuefnasjúkra. Fyrir liggur að núverandi stjórn ætlar að breyta lögum samtakanna sem styrkir þau enn betur í sessi sem hagsmunasamtök starfsmanna. Allt frá upphafi samtakanna árið 1977 hefur önnur okkar og hin frá árinu 1983 átt tengsl við SÁÁ með fleiri en einum hætti. Við eigum það sameiginlegt að hafa þegið þjónustu SÁÁ og fengið aukin lífsgæði og betra líf fyrir okkur sjálfar, fjölskyldur okkar svo ekki sé talað um að við höfum verið betri þjóðfélagsþegnar. Auk þess að vera notendur þjónustu SÁÁ höfum við verið samstarfsmenn, tekið þátt í ýmsu félagsstarfi sælla minninga og önnur okkar verið starfsmaður og setið í framkvæmdarstjórn samtakanna. Við höfum margþætta reynslu af störfum innan velferðarþjónustunnar í málaflokki um vímuefnavandann svo sem ráðgjöf í meðferð, félagsþjónustu, starfsemi búsetuúrræða bæði fyrir einstaklinga í bata og þá sem hafa dvalið í skaðaminnkandi úrræðum. Við höfum áhyggjur af framtíð vímuefnameðferðar í landinu, fyrir hönd núverandi og komandi kynslóða og ekki að ástæðu lausu. Við viljum koma inn í aðalstjórn samtakanna til að hafa áhrif á framtíð þeirra fyrst og fremst og koma í veg fyrir að núverandi stjórn fari með samtökin og starfsemi þeirra í algjört þrot. Áhyggjur okkar eru vegna þeirra ófara sem hafa dunið á í tíð núverandi framkvæmdarstjórnar og hefur verið þó nokkuð fjallað um í fjölmiðlum s.s. kæra Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til héraðsaksóknara og kæru til landlæknisembættis. Það slær mann hvað viðbrögð stjórnar og starfsmanna við þeim vanda sem snýr að þessu eru forkastanleg og lýsa afneitun á stöðu mála. Einnig er vert að hafa áhyggjur af áherslubreytingum í meðferðinni varðandi afköst og að ekki er unnið með að fækka á biðlista eftir meðferð. Þá virðist halla undan fæti varðandi megin þátt starfseminnar sem er í höndum áfengis-og vímuefnaráðgjafa þar sem dregið hefur verið markvist úr kennslu, handleiðslu og endurmenntun fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafanema og ráðgjafa, undanfarin 4 ár. Hjarta okkar slær með vímuefnasjúkum og fjölskyldum þeirra og vilji okkar er að efla ráðgjafastéttina, hafa öflugt sjúkrahús (Vogur) með sérhæfðum læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til að sinna veikum, bráðveikum og langveikum einstaklingum með vímuefnasýki. Það er þekkt að afleiðingar neyslu áfengi og/eða annarra vímuefna geta verið margvíslegar og ekki síst á félagslega þætti s.s. brottfall úr námi, atvinnumissir, skertrar starfsgetu, skilnaður, vanræksla, afbrot ofl. sem getur leitt til einangrunar, fátæktar og oft á tíðum heimlisileysis. Áhersla okkar er einnig á að auka tengsl enn betur við velferðarþjónustu og auka þannig bataauð þeirra sem koma í meðferð. Efla tengsl við félagsþjónustu, starfsendurhæfingu og öldrunarþjónustu. Samþætta þannig þjónustu meðferðarsviðs og annarrar velferðarþjónustu sem varðar húsnæðismál, atvinnumál, og þjónustu vegna sértæks vanda sem afleiðingu af neyslu og er á höndum félagsþjónustu, almennrar heilsugæslu, Vinnumálastofnunar, Virk ofl. að leysa.

Elísabet Dottý Kristjánsdóttir og Erla Björg Sigurðardóttir félagar í SÁÁ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×