Skoðun

„Börn eiga að éta það sem úti frýs“

Lúðvík Júlíusson skrifar

Ísland er merkilegt land að mörgu leyti. Tökum dæmi.

Barn býr hjá foreldri sem hefur ekki efni á mat, fatnaði, húsnæði, á tómstundum og öðrum tilfallandi kostnaði. Samkvæmt íslenskum lögum þá býr barnið ekki við fátækt. Íslenskir stjórnmálamenn, hvorki á Alþingi né í sveitarstjórnum, vilja hjálpa þessum börnum og foreldrum. Þeir líta svo á að þetta sé foreldrunum að kenna.

Ástæðan er sú að barnið lifir í fátækt hjá umgengisforeldri. Þá telja Íslendingar að barnið sé annað hvort ónæmt fyrir fátækt eða að fátæktin geri því bara gott. Íslendingar og stjórnmálamenn eru mjög fordómafullir þegar kemur að börnum. Fordómum sem skaða börn varanlega.

Lög um mótvægisaðgerðir gegn verðbólgu

Nýlega voru samþykkt lög um mótvægisaðgerðir gegn verðbólgu. Markmið frumvarpsins er „að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins.“

Hvergi í frumvarpinu er fjallað um börn sem búa á tveimur heimilum, hvergi er fjallað um fátækt barna hjá umgengisforeldrum og hvergi er fjallað um breytingar á meðlagi.

Börn njóta ekki tilveruréttar

Börn sem njóta reglulegrar umgengni njóta ekki sömu réttinda og önnur börn. Stjórnvöld neita þeim um sama tilverurétt í samfélaginu okkar og öðrum börnum. Rannsóknir hafa sýnt að staða þessara barna sé verri en annarra barna, samt er ekkert gert. Að gera ekkert til að uppræta fátækt barna sem tilheyra viðkvæmum hópum er pólitísk ákvörðun. Það er pólitísk ákvörðun um að þessi börn eigi og skuli lifa í fátækt og éta það sem úti frýs.

Meðlagið

Í frumvarpinu um mótvægisaðgerðir gegn verðbólgu er hvergi minnst á meðlag. Meðlagsgreiðslur hækkuðu samt um 3% síðustu mánaðarmót. Ekki er athugað hvaða áhrif þetta hefur á foreldra eða börn. Aukin útgjöld eru samt alltaf íþyngjandi. Það er því deginum ljósara að lífskjör ákveðins hóps barna sem tilheyra viðkvæmum hópum munu versna við þessar breytingar.

Börn í ruslflokk

Þegar stjórnvöld senda ítrekað út skilaboð um hlutverk kynjanna og að börn fráskilinna(börn einstæðra foreldra) séu minna virði en önnur börn þá er ekkert skrítið að staða bæði barna og foreldra sé slæm. Til þess að vinna gegn þessu þá er nauðsynlegt að stjórnvöld rannsaki stöðu barna og foreldra og nauðsynlegt að stjórnvöld sjálf líti í eigin barm og losi sig við þá gríðarlegu skaðlegu fordóma sem þau hafa og sem setja börn í viðkvæmri stöðu lóðrétt í ruslflokk.

Stjórnvöld viðhalda fátækt

Meiri líkur eru á því að þessi börn munu vera fátæk þegar þau verða fullorðin og hafa verri heilsu. Þau munu hafa minni getu en aðrir til að vinna sig úr fátækt.

Hvers vegna vilja stjórnvöld og almenningur hafa þetta svona?

Hvers vegna hjálpum við ekki öllum foreldrum og öllum börnum úr fátækt?

Höfundur er viðskiptafræðingur, faðir og áhugamaður um réttindi barna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×