Handbolti

Viktor Gísli og félagar danskir meistarar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG fögnuðu danska meistaratitlinum í handbolta í dag.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG fögnuðu danska meistaratitlinum í handbolta í dag. Uros Hocevar/Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG eru danskir meistarar í handbolta eftir nauman eins marks sigur gegn Aroni Pálmarssyni og félögum hans í Álaborg í dag, 26-27.

Fyrri leikur liðanna endaði með jafntefli, 25-25, og GOG vann einvígið því samanlagt 52-51.

Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu og liðin skiptust á að skora. Heimamenn í Álaborgarliðinu náðu þó góðu áhlaupi um miðjan fyrri hálfleik og skoruðu fjögur mörk í röð og breyttu þannig stöðunni úr 7-7 í 11-7. Aron og félagar héldu forskotinu út hálfleikinn og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 16-13.

Gestirnir í GOG voru þó ekki lengi að svara fyrir sig í upphafi síðari hálfleiks og fljótt varð allt jafnt á ný. Heimamenn virtust þó skrefinu framar lengst af í síðari hálfleik, en þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka tóku gestirnir forystuna í fyrsta skipti síðan í stöðunni 0-1.

Við tóku æsispennandi lokamínútur. Gestirnir í GOG náðu tveggja marka forystu þegar tvær og hálf mínúta voru til leiksloka, en heimamenn minnkuðu muninn þegar tæplega mínúta var eftir á klukkunni. Nær komust þeir þó ekki og gestirnir í GOG fögnuðu eins marks sigri, 26-27.

Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Álabog, en Viktor Gísli Hallgrímsson varði fjögur skot í marki GOG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×