Erlent

Rúmlega tuttugu látnir í lestarslysi í Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Farþegarlestin rakst á skurðgröfu með þeim afleiðingum að fimm vagnar fór út af sporinu.
Farþegarlestin rakst á skurðgröfu með þeim afleiðingum að fimm vagnar fór út af sporinu. AP/Rauði hálfmáninn í Íran

Að minnsta kosti tuttugu og einn er látinn og tugir til viðbótar slasaðir eftir að farþegalest fór út af sporinu í austanverðu Íran. Viðbragðsaðilar segja að lestin hafi rekist á skurðgröfu og hrokkið út af.

Slysið átti sér stað á milli borganna Mashhad og Yazd um fimmtíu kílómetra frá borginni Tabas, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Um borð voru 348 farþegar. Ali Akbar Rahimi, héraðsstjóri Tabas-sýslu, segir að fjórir af sjö vögnum lestarinnar hafi endað út af sporinu.

AP-fréttastofan segir að lestin hafi lent á gröfunni þegar hún fór yfir undirgöng. Svo virðist sem að skurðgröfunni hafi verið lagt þétt upp við lestarteinana og hún látin standa þar yfir nótt.

Talið er að tala látinna eigi eftir að hækka þar sem margir liggja alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi. Einn farþeganna segir ríkisfjölmiðli Íran að lestin hafi bremsað skyndilega og síðan hægt á sér áður en hún fór út af sporinu.

Saksóknari í Tabas hefur þegar hafið rannsókn á orsökum slyssins og hvers vegna lestin lenti á skurðgröfunni. AP hefur eftir embættismanni að grafan kunni að hafa unnið að viðhaldsverkefni.

Fjöldi manns hefur látist í lestarslysum í Íran á undanförnum árum. Árið 2016 fórust 49 manns þegar lest sem bilaði varð fyrir annarri lest í Semnan-héraði í norðurhluta landsins. Mannskæðasta slysið var árið 2004 en þá fórust hátt í 320 manns þegar lest sem var hlaðin með bensíni, áburði og baðmull fór út af sporinu. við Neyshabur í norðaustanverðu Íran.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×