Handbolti

Snorri Steinn: Hef aldrei efast um hjartað í mínu liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmennirnir hans Snorra Steins Guðjónssonar voru komnir í erfiða stöðu en unnu sig út úr henni.
Valsmennirnir hans Snorra Steins Guðjónssonar voru komnir í erfiða stöðu en unnu sig út úr henni. vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir dramatískan sigur á ÍBV, 31-30, var Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að vanda yfirvegaður í leikslok.

„Þetta er mjög sætt. Það segir sig sjálft. Við vorum komnir í vonda stöðu en náðum að snúa þessu við og ég er gríðarlega stoltur af strákunum að hafa gert það,“ sagði Snorri við Vísi eftir leik.

Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, keyrðu miskunnarlaust á Eyjamenn og skoruðu að vild þótt munurinn á liðunum væri aldrei mikill.

„Það var mikill hraði í leiknum. Bæði lið að keyra, mörg mörk og mörg mistök. Heilt yfir voru alltof margir tæknifeilar hjá báðum liðum,“ sagði Snorri.

En var einhver sérstök ástæða fyrir því að Valur tapaði boltanum átján sinnum í leiknum?

„Ég veit það ekki. Leikurinn var hraður, spennustigið hátt og menn ætluðu sér kannski aðeins of mikið. Það getur gerst,“ svaraði Snorri.

Valsmenn voru komnir í vond mál, fjórum mörkum undir, 23-27, þegar níu mínútur voru eftir en náðu að snúa því við.

„Ég hef aldrei efast um hjartað í mínu liði en við töpuðum svona leik úti í Eyjum um daginn. Þess vegna er ennþá sætara að koma til baka úr erfiðri stöðu og landa sigri í svona leik,“ sagði Snorri að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.