Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - ÍBV 31-30 | Valsmenn einum sigri frá titlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruðningurinn sem Alexander Örn Júlíusson fiskaði á Elmar Erlingsson réði úrslitum.
Ruðningurinn sem Alexander Örn Júlíusson fiskaði á Elmar Erlingsson réði úrslitum. vísir/hulda margrét

Valur vann eins marks sigur á ÍBV, 31-30, í frábærum þriðja leik liðanna í úrslitum Olís-deildar karla í kvöld. Valsmenn eru 2-1 yfir í einvíginu og geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í fjórða leiknum í Vestmannaeyjum á laugardaginn.

Leikurinn var æsispennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokaandartökunum. Arnór Snær Óskarsson kom Val yfir, 31-30, en ÍBV fékk um tuttugu sekúndur til að jafna. 

Erlingur Richardsson, þjálfari Eyjamanna, stillti upp í óvænt leikkerfi, Elmar Erlingsson stökk inn á sem sjöundi sóknarmaður og ætli að koma boltanum út í hægra hornið á Theodór Sigurbjörnsson en Alexander Örn Júlíusson fiskaði ruðning á hann og Valsmenn fögnuðu sigri.

Björgvin Páll Gústavsson fagnar með Róberti Aroni Hostert í leikslok.vísir/hulda margrét

Eyjamenn eiga mikið hrós skilið hvernig þeir hafa svarað skellinum í fyrsta leiknum á fimmtudaginn þar sem þeir voru þrettán mörkum undir í hálfleik. Miðað við þann leik benti ekkert til annars en Valur myndi vinna einvígið 3-0 en ÍBV var á öðru máli og Erlingur fann lausnir gegn þessu frábæra Valsliði. 

ÍBV vann annan leikinn í Eyjum og var hársbreidd frá því að sigra Val í kvöld þrátt fyrir að tapa boltanum 23 sinnum. Spilamennska Eyjamanna í síðustu tveimur leikjum er sérstaklega aðdáunarverð í ljósi þess að Rúnar Kárason er meiddur og Sigtryggur Daði Rúnarsson getur lítið beitt sér.

Valsmenn voru með frumkvæðið framan af leik en um miðbik fyrri hálfleiks kom mikill kraftur í vörn Eyjamanna. Þá átti Björn Viðar Björnsson góða innkomu í markið eins og í öðrum leiknum.

Dagur Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV og gaf sjö stoðsendingar.vísir/hulda margrét

Staðan í hálfleik var jöfn, 17-17, og jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfleik. En eftir að Valur komst í 23-21 skoraði ÍBV sex mörk í röð og náði fjögurra marka forskoti, 23-27. Valsmenn svöruðu með 4-0 kafla og úrslitin réðust síðan undir blálokin sem fyrr sagði.

Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sex mörk fyrir Val og Arnór Snær, Magnús Óli Magnússon og Róbert Aron Hostert fimm mörk hver. Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki á meðal markaskorara en gaf átta stoðsendingar. Björgvin Páll Gústavsson varði þrettán skot 31 prósent).

Alls komust tólf leikmenn ÍBV á blað í leiknum. Arnór Viðarsson var þeirra markahæstur með fimm mörk. Björn Viðar varði tíu skot (33 prósent).

Benedikt Gunnar Óskarsson kom Valsmönnum aftur inn í leikinn þegar staða þeirra var orðin svört.vísir/hulda margrét

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og að horfa á fyrsta stundarfjórðunginn var eins og að horfa á þythokkí. Bæði lið keyrðu af ótrúlegum mætti, mörkin voru mörg og sömuleiðis mistökin.

Valsmenn voru með frumkvæðið en náðu ekki að slíta sig frá Eyjamönnum þrátt fyrir að gestirnir hafi tapað boltanum tíu sinnum á fyrstu sextán mínútum leiksins.

Valur komst í 13-10 eftir sautján mínútur þegar Róbert Aron skoraði sitt fimmta og síðasta mark í leiknum. Þá þétti ÍBV vörnina og þvingaði Val í marga tapaða bolta. Eftir að hafa skorað þrettán mörk á fyrstu sautján mínútum fyrri hálfleiks skoruðu Valsmenn aðeins fjögur mörk á síðustu þrettán mínútum hans.

Eyjamenn voru sterkari seinni hluta fyrri hálfleiks og Elmar Erlingsson jafnaði í 16-16 úr vítakasti. Benedikt Gunnar Óskarsson kom Val aftur yfir en Nökkvi Snær Óðinsson sá til þess að staðan í hálfleik var jöfn, 17-17, þegar hann skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks úr vinstra horninu. Sem sagt 34 mörk í fyrri hálfleik og 23 tapaðir boltar.

Elmar hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í úrslitakeppninni.vísir/hulda margrét

Leikurinn var áfram í járnum framan af seinni hálfleik. En í stöðunni 23-21 fyrir Valsmenn fylltust Eyjamenn fítonskrafti. Þeir lokuðu vörninni og skoruðu sex mörk í röð. Heimamenn virkuðu ráðalausir og allt lak inn hjá Björgvini Páli á meðan Björn Viðar varði vel hinum megin.

Arnór kom ÍBV fjórum mörkum yfir, 23-27, þegar níu mínútur voru eftir. Benedikt kom Val aftur í gang með tveimur mörkum í röð og þeir jöfnuðu svo í 27-27. Liðin skiptust á mörkum það sem eftir lifði leiks og spennan var óbærileg.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, tók leikhlé í stöðunni 30-30 þegar 43 sekúndur voru eftir og leiktöf yfirvofandi. Valsmenn útfærðu sóknina sína Val og glufa opnaðist fyrir Arnór sem smeygði sér í gegn, skoraði og kom Val yfir, 31-30.

Arnór Snær Óskarsson skorar sigurmarkið.vísir/hulda margrét

ÍBV hafði þó nægan tíma til að jafna og leikhlé inni. Erlingur tók það þegar um tuttugu sekúndur voru eftir og teiknaði upp gott kerfi. Í stað þess að vera með tvo línumenn sendi Erlingur Elmar inn á hægra megin. 

Hann reyndi að koma boltanum út í hornið á Theodór en Alexander las leikinn vel og sótti ruðning. Lokatölur 31-30, Val í vil og annar Íslandsmeistaratitilinn í röð innan seilingar.

Snorri Steinn: Menn ætluðu sér kannski aðeins of mikið

Snorri Steinn Guðjónsson kvaðst stoltur af Valsmönnunum sínum.vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir dramatískan sigur á ÍBV, 31-30, var Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að vanda yfirvegaður í leikslok.

„Þetta er mjög sætt. Það segir sig sjálft. Við vorum komnir í vonda stöðu en náðum að snúa þessu við og ég er gríðarlega stoltur af strákunum að hafa gert það,“ sagði Snorri eftir leik.

Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, keyrðu miskunnarlaust á Eyjamenn og skoruðu að vild þótt munurinn á liðunum væri aldrei mikill.

„Það var mikill hraði í leiknum. Bæði lið að keyra, mörg mörk og mörg mistök. Heilt yfir voru alltof margir tæknifeilar hjá báðum liðum,“ sagði Snorri.

En var einhver sérstök ástæða fyrir því að Valur tapaði boltanum átján sinnum í leiknum?

„Ég veit það ekki. Leikurinn var hraður, spennustigið hátt og menn ætluðu sér kannski aðeins of mikið. Það getur gerst,“ svaraði Snorri.

Valsmenn voru komnir í vond mál, fjórum mörkum undir, 23-27, þegar níu mínútur voru eftir en náðu að snúa því við.

„Ég hef aldrei efast um hjartað í mínu liði en við töpuðum svona leik úti í Eyjum um daginn. Þess vegna er ennþá sætara að koma til baka úr erfiðri stöðu og landa sigri í svona leik,“ sagði Snorri að lokum.

Erlingur: Bara stórhættulegur varnarleikur

Erlingur Richardsson hafði ýmislegt við dómgæsluna að athuga.vísir/hulda margrét

„Eitt mark,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, aðspurður hvað hefði skilið að í leiknum gegn Val í kvöld. Eyjamenn töpuðu 31-30 í hörkuleik.

Valsmenn voru afar öflugir í upphafi leiks og skoruðu tíu mörk á fyrstu tíu mínútum en eftir það náðu Eyjamenn betri takti í vörninni.

„Það er voðalega erfitt að segja. Við skoruðum líka slatta,“ sagði Erlingur er hann var spurður hvað hefði vantað upp á í byrjun leiks.

ÍBV átti frábæran kafla um miðbik seinni hálfleiks þar sem liðið skoraði sex mörk í röð og komst fjórum mörkum yfir, 23-27.

„Við náðum að keyra aðeins og þeir voru í undirtölu. Svo fengum við þrisvar tvær mínútur á þessu augnabliki sem var dálítið klúður af okkar hálfu og það fór svolítið með þá stöðu,“ sagði Erlingur.

Arnór Snær Óskarsson kom Val yfir, 31-30, en ÍBV fékk rúmar tuttugu sekúndur til að jafna metin. En ruðningur var dæmdur á Elmar Erlingsson í lokasókn gestanna.

„Ekkert, við fengum bara færi í horninu. Hann dæmir einhvern óskiljanlegan ruðning,“ sagði Erlingur sem var ekki sáttur með hvernig dómarar leiksins mátu ruðninga í kvöld.

„Við fengum voðalega fáa ruðninga dæmda á okkur. Ég kvartaði yfir því og vildi fá dæmt fríkast því það var dæmdur ruðningur. Ég bað hann um að vernda leikmennina því menn eru að grípa utan um menn og toga þá í gólfið. Það er ekki ruðningur. Það er bara stórhættulegur varnarleikur.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.