Innherji

Útboð ríkisins í Íslandsbanka í samræmi við jafnræðisreglu, segir LOGOS

Hörður Ægisson skrifar
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar.
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar.

Ákvörðun um að takmarka þátttöku í útboði ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum við hæfa fjárfesta án þess að setja sérstök skilyrði um lágmarkstilboð fól ekki í sér, að mati lögmannsstofunnar LOGOS, brot gegn jafnræðisreglu. Bankasýsla ríkisins, sem sá um framkvæmd söluferlisins, hafi sömuleiðis gert „fullnægjandi ráðstafanir“ til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu.

Þetta er niðurstaða LOGOS í minnisblaði sem lögmannsstofan vann fyrir Bankasýsluna en þar segir einnig að ákvörðun stofnunarinnar að skerða að fullu tilboð tveggja „kvikra fjárfesta“ – sem bárust frá eigin viðskiptum Landsbankans og Kviku banka – hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og verið í samræmi við jafnræðisreglu.

Í minnisblaði LOGOS, sem var skilað til Bankasýslunnar um miðja síðustu viku, er jafnframt bent á að viðbótarskilyrði um lágmarkstilboð hefði í raun haft þau áhrif að þrengja enn frekar þann fjárfestahóp sem hefði átt þess kost að gera tilboð í útboðinu. „Skilyrðið hefði því gengið þvert gegn markmiðum laga um opið söluferli og hagkvæmni, sem og markmiðum um dreift eignarhald,“ að því segir í lögfræðiálitinu.

Er ótvírætt að okkar mati að auglýsing Bankasýslu ríkisins og tilkynning í kauphöll um útboðið hafi tryggt að jafnræðis var gætt meðal þeirra sem áttu þess kost á að gera tilboð.

Stjórn Bankasýslunnar ákvað að leita til LOGOS til að leggja mat á hvort jafnræðis hafi verið gætt við sölumeðferð ríkissjóðs, þegar 22,5 prósenta hlutur var seldur með tilboðsfyrirkomulagi fyrir tæplega 53 milljarða króna, í kjölfar ásakana sem meðal annars Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, setti fram um að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu við útboðið.

Í grein sem Kristrún skrifaði á Vísir í byrjun þessa mánaðar – undir yfirskriftinni: Afgerandi vísbendingar um lögbrot – sagði hún að svör forsvarsmanna Bankasýslunnar og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á opnum fundum með fjárlaganefnd hafi bent „sterklega til þess að ekki hafi verið farið að lögum við undirbúning og framkvæmd sölunnar.“

Kristrún, sem situr í fjárlaganefnd Alþingis, færði fyrir því rök í greininni að jafnræðisreglan í lögum um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefði verið brotin með þrenns konar hætti við útboð Bankasýslunnar; 1) útlokun almennings hafi ekki staðist skoðun; 2) ekki hafi allir „hæfir fjárfestar“ getað tekið þátt; 3) og tveimur „hæfum fjárfestum“ hafi verið hafnað.

Í minnisblaði LOGOS, þar sem meðal annars er einnig ítarlega farið yfir aðdraganda sölunnar, fyrirkomulag og kynningu á henni, er hins vegar sem fyrr segir komist að þeirri niðurstöðu að jafnræðisreglan hafi með engum hætti verið brotin við framkvæmd útboðsins. Á það er bent að á meðal þeirra ráðstafana sem voru gerðar til að tryggja sem best jafnt aðgengi hæfra fjárfesta var að áskriftartímabilið var lengra en almennt gerist í sambærilegum útboðum, fengnir voru átta erlendir og innlendir söluráðgjafar og tilkynnt var um það í Kauphöllinni eftir lokun markaða þriðjudaginn 22. mars þegar útboðið hófst. Öllum þeim sem féllu í hóp hæfra fjárfesta hefði því „ótvírætt“ átt að vera kunnugt um það.

„Er raunar vandséð um aðra kosti í stöðunni og hvernig unnt hefði verið að ganga lengra í þessum efnum án þess að stefna í tvísýnu öðrum markmiðum söluferlisins, þ.e. einkum að lágmarka áhættu við útboðið og tryggja fjárhagslega hagsmuni ríkisins,“ segir í lögfræðiáliti LOGOS, sem er skrifað af Óttari Pálssyni, einum eigenda lögmannsstofunnar, en félagið var lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslunnar við sölumeðferðina.

Þá er bent á að þótt útboðið sjálft hafi eðli málsins tekið skamman tíma, eða um fimm klukkustundir, þá höfðu upplýsingar um það legið fyrir um allnokkurt skeið í aðdraganda þess. Fjármálaráðherra tilkynnti Bankasýslunni að hann hefði samþykkt tillögu stofnunarinnar um að hefja sölu á frekari hlutum í bankanum þann 10. febrúar síðastliðinn en eftir það fór málið til umfjöllunar fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Að fengnum umsögnum nefndanna, þar sem meirihluti þeirra mælti með því að fram yrði haldið með söluferlið með þeim hætti sem Bankasýslan lagði til, tilkynnti fjármálaráðherra föstudaginn 18. mars að hann hefði ákveðið að fela stofnuninni að hefja framhald á sölu á hlutum í Íslandsbanka háð því að markaðsaðstæður væru hagfelldar.

„Má ætla að fagfjárfestar hafi almennt verið meðvitaðir um að útboðsins væri að vænta meðal annars í ljósi heimildar til sölunnar í fjárlögum og þeirrar opinberu kynningar sem málið hlaut á grundvelli laga [um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum]. Er ekki ósanngjarnt að gera þær kröfur til viðkomandi, meðal annars í ljósi stöðu þeirra sem fagfjárfesta og þar með þekkingar og reynslu á fjármálamarkaði, að þeir hefðu gert nauðsynlegar ráðstafanir og væru undir það búnir að setja fram tilboð að eigin frumkvæði og með skömmum fyrirvara eftir að tilkynning um útboðið varð opinber,“ segir í áliti LOGOS.

Skammtímafjárfestar skertir meira en aðrir fjárfestar

Verðið sem ríkissjóður seldi hlut sinn á, sem jafngilti genginu 1,15 miðað við þávernadi bókfært eigið fé bankans, var 117 krónur á hlut, eða rétt rúmlega 4 prósentum lægra en markaðsgengið – 122 krónur á hlut – hafði verið við lokun markaða daginn áður. Sá „afsláttur“ var heldur lægri en forsvarsmenn Bankasýslunnar höfðu búist við þegar ráðist var í söluferlið með hliðsjón af því hversu stóran hlut væri verið að selja með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi í skráðu félagi á markaði.

Útgáfa lýsingar hefði aukið kostnað seljandans, áhættu í söluferlinu, sem óhjákvæmilega hefði teygst yfir lengri tíma, og dregið úr líkum þess að hæsta verð fengist.

Samtals keyptu 207 fagfjárfestar hlut í bankanum í útboðinu en mestu var úthlutað til lífeyrissjóða sem keyptu fyrir tæplega 20 milljarða, eða um 37 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkið seldi. Einkafjárfestar keyptu fyrir um 16 milljarða, innlendir verðbréfasjóðir fengu úthlutað tæplega 6 milljörðum og þá keyptu erlendir sjóðir fyrir um átta milljarða. Tilboðsgjafar sem voru metnir skammtímafjárfestar, eins og meðal annars svonefndir spákaupmenn og fjárfestingarsjóðir sem notast við mikla skuldsetningu í kaupum sínum á hlutabréfamarkaði, þurftu að sæta umtalsvert meiri skerðingum en aðrir fjárfestar.

Í lögfræðiáliti LOGOS segir að þegar kom að ákvörðun Bankasýslunnar um hvort og að hvaða leyti tilboð einstakra tilboðsgjafa yrðu skert var einkum lögð á það áhersla, eins og fjármálaráðherra hafði gert í bréfi til Bankasýslunnar 18. mars síðastliðinn, að fjárfestar sem horfðu til lengri tíma yrðu fyrir minni skerðingu en skammtímafjárfestar. Bankasýslunni hafi því borið að líta til þessa við ákvörðun um skerðingu tilboða og þá hafi einni falist í tillögu stofnunarinnar, sem ráðherra hafi fallist á, að tekið yrði mið af viðteknum venjum á hlutabréfamörkuðum við úthlutun.

Fyrir liggur að Bankasýslan hafnaði tilboðum frá eigin viðskiptum Landsbankans og Kviku banka en í báðum tilfellum mun hafa verið um að ræða tilboð fyrir veltubækur bankanna.

Rifjað er upp í minnisblaðinu að í skriflegum svörum Bankasýslunnar við fyrirspurn fjárlaganefndar í lok apríl hafi komið fram að fyrrnefndum tilboðum hafi verið hafnað, meðal annars á grundvelli ráðgjafar fjármálaráðgjafa stofnunarinnar, STJ Advisors. „Ekki tíðkist í alþjóðlegum útboðum að samþykkja tilboð slíkra fjárfesta, sem í eðli sínu eru kvikir. Fyrir því eru gildar ástæður. Það er beinlínis hlutverk, tilgangur og markmið með eigin viðskiptum fjármálafyrirtækja sem fram fara í veltubók að hagnast á skammtímahreyfingum á verði fjármálagerninga,“ segir í áliti LOGOS.

Má ætla að fagfjárfestar hafi almennt verið meðvitaðir um að útboðsins væri að vænta meðal annars í ljósi heimildar til sölunnar í fjárlögum og þeirrar opinberu kynningar sem málið hlaut á grundvelli laga [um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum].

Þá er bent á að í tillögu Bankasýslunnar og greinargerð ráðherra hafi sérstaklega verið tiltekið og rökstutt sú afstaða að tilboðsfyrirkomulag væri besta aðferðin til að uppfylla forgangsmarkmið sölumeðferðar um hagkvæmni, sem og önnur markmið sem fram koma í lögum um sölu á hlutum ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum. Ekki verður annað ráðið en að mat stofnunarinnar hafi stuðst við gild og málefnaleg rök,“ að mati LOGOS.

Með því að beina útboðinu einungis að hæfum fjárfestum þarf ekki að huga að sömu fjárfestavernd og gildir um almenning og þannig stefnt að því tryggja hagkvæmni. „Útgáfa lýsingar hefði aukið kostnað seljandans, áhættu í söluferlinu, sem óhjákvæmilega hefði teygst yfir lengri tíma, og dregið úr líkum þess að hæsta verð fengist. Þá er til þess að líta að umrædd aðferð var samþykkt af hálfu ráðherra og hlaut umsögn viðeigandi þingnefnda og Seðlabanka Íslands, líkt og lög gera ráð fyrir,“ segir í minnisblaði LOGOS.

Þá er rifjað upp að í tillögu Bankasýslunnar, sem var kynnt ítarlega tveimur þingnefndum, hafi komið skýrt fram að aðkoma almennings yrði að sama skapi takmörkuð. Hún hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum, að því er fram kemur í álitinu, og samræmst þeim markmiðum sem lög gera ráð fyrir og hafi legið fyrir á öllum stigum söluferlisins. Ekki verði þess vegna séð að með þeirri tillögu Bankasýslunnar hafi stofnunin farið út fyrir það svigrúm sem lög gera ráð fyrir að ráðherra hafi við val á leiðum við sölumeðferð.

Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á söluferli Íslandsbanka, eftir að hafa fallist á beiðni þess efnis frá fjármálaráðherra, og er niðurstöðu hennar að vænta í næsta mánuði. Þá hefur Fjármálaeftirlit Seðlabankans einnig til rannsóknar tiltekna þætti í tengslum við útboðið og en sé athugun beinist að starfsháttum söluráðgjafa fjármálafyrirtækja, meðal annars þátttöku starfsmanna þeirra í útboðinu og hvort fjárfestar hafi réttilega verið metnir hæfir, en ekki störfum Bankasýslunnar.

Í viðtali við sem birtist við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslunnar, í breska tímaritinu Euromoney í síðustu viku kom fram að hann teldi að sala ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í útboðinu í mars hafi heppnast betur en frumútboð bankans í júní í fyrra.

„Við seldum meira en 300 daga magn í Íslandsbanka,“ sagði Jón Gunnar og vísar þar til þess að salan hafi samsvarað um 300 daga veltu með bréf bankans í Kauphöllinni. Hann ber niðurstöðuna saman við sölu Kaupþings á tíu prósenta hlut í Arion banka árið 2019 sem var einnig framkvæmd með tilboðsfyrirkomulagi.

„Til að setja það í samhengi var 150 daga velta seld með 8 prósenta afslætti í framhaldsútboði Arion banka árið 2019.“

Jón Gunnar virðist gáttaður á viðbrögðunum við bankasölunni samkvæmt lýsingu blaðamanns Euromoney. Hann tekur undir orð Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, um að umræðan hafi litast af því að tilboðsfyrirkomulagi sé lítt þekkt aðferð á Íslandi.

„Eftir á að hyggja hefðum við og ríkisstjórnin getað staðið okkur betur í því að upplýsa almenning um ferlið,“ viðurkennir hann.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka stendur nú í 121,4 krónum á hlut – eftir að hafa farið hæst upp í 130 krónur í byrjun aprílmánaðar – og er markaðsvirði bankans um 243 milljarðar króna. Eftirstandandi 42,5 prósenta eignarhlutur ríkissjóðs er því í dag metinn á um 103 milljarða króna.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir keyptu fyrir 20 milljarða, einkafjárfestar með þriðjung útboðsins

Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað meira en þriðjung þeirra eignarhluta í Íslandsbanka sem ríkissjóður seldi í hlutafjárútboðinu sem kláraðist í síðustu viku. Samtals keyptu 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir útboðið samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngildir liðlega 8,5 prósenta eignarhlut.

Félög Þorsteins Más og Guðbjargar hafa ekki selt neitt í Íslandsbanka

Eignarhaldsfélagið Steinn, sem er í meirihlutaeigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og fjárfestingafélagið Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu og rekur meðal annars Ísfélag Vestmannaeyja, hafa ekki selt neitt af þeim bréfum sem þau keyptu í útboði Bankasýslu ríkisins á ríflega fimmtungshlut í Íslandsbanka í lok síðasta mánaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×