Innherji

Seinna út­boð ÍSB heppnaðist betur en hið fyrra, segir banka­sýslu­stjóri

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins. 
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins.  Rúnar Vilberg

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, telur að sala ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í mars, hafi heppnast betur en frumútboð bankans í fyrra. 

Þetta kemur fram í ýtarlegu viðtali við forstjórann í breska viðskiptatímaritinu Euromoney.

Í marsútboðinu var notast við svokallað tilboðsfyrirkomulag þar sem stuðst var við sömu aðferðir og í frumútboði nema að ekki var gefin út skráningarlýsing. Þar af leiðandi takmarkaðist útboðið við fagfjárfesta.

Verðið í útboðinu, 117 krónur á hlut, var 4,1 prósenti lægra en dagslokagengi Íslandsbanka í Kauphöllinni.

„Við seldum meira en 300 daga magn í Íslandsbanka,“ segir Jón Gunnar og vísar þar til þess að salan hafi samsvarað um 300 daga veltu með bréf bankans í Kauphöllinni. Hann ber niðurstöðuna saman við sölu Kaupþings á tíu prósenta hlut í Arion banka árið 2019 sem var einnig framkvæmd með tilboðsfyrirkomulagi.

„Til að setja það í samhengi var 150 daga velta seld með 8 prósenta afslætti í framhaldsútboði Arion banka árið 2019.“

Jón Gunnar segist vera sérstaklega ánægður með þátttöku bandaríska fjármálarisans Capital Group, sem keypti fyrir milljarð í útboðinu og er fimmti stærsti hluthafi bankans, í ljósi þess að félagið hefur með markvissum og áberandi hætti selt sig niður í evrópskum bönkum, til dæmis Deutsche Bank og Commerzbank, að undanförnu.

Við vildum skapa samkeppni milli innlendra og erlendra fjárfesta til þess að sýna fram á að lífeyrissjóðirnir myndi ekki einir ráða verðinu

Jón Gunnar virðist gáttaður á viðbrögðunum við bankasölunni samkvæmt lýsingu blaðamanns Euromoney. Hann tekur undir orð Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, um að umræðan hafi litast af því að tilboðsfyrirkomulagi sé lítt þekkt aðferð á Íslandi.

„Eftir á að hyggja hefðum við og ríkisstjórnin getað staðið okkur betur í því að upplýsa almenning um ferlið,“ viðurkennir hann.

Jón Gunnar fjallar einnig um frumútboð Íslandsbanka í fyrra þegar ríkissjóður seldi 35 prósenta hlut í bankanum. Lykillinn að farsælli niðurstöðu í útboðinu var að skapa spennu milli innlendra og erlendra fjárfesta en í viðtalinu er bent á að lífeyrissjóðir eigi um 40 prósent skráðra bréfa í Kauphöllinni.

„Það þýðir að þýðir að tilhneigingin sé sú að þeir stýri því hvert verðið fer þannig að við vildum skapa samkeppni milli innlendra og erlendra fjárfesta til þess að sýna fram á að lífeyrissjóðirnir myndi ekki einir ráða verðinu,“ segir Jón Gunnar.

Eftir á að hyggja hefðum við og ríkisstjórnin getað staðið okkur betur í því að upplýsa almenning um ferlið

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 20 prósent eftir frumútboðið í fyrra sem var lítillega umfram væntingar forstjóra Bankasýslunnar.

„Þegar þú heldur á 65 prósenta eignarhlut er verðfall það síðasta sem þú vilt sjá,“ segir Jón Gunnar. „Þú getur reynt að ýta verðinu upp fyrir skammtímaávinning en það myndi fela í sér gríðarlegan kostnað til lengri tíma litið.“

Bankasýsla ríkisins gerði bæði efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir því hvernig tilboðsfyrirkomulagið, sem var notað við síðustu sölu ríkissjóðs á hlutafé í Íslandsbanka, virkaði og hvaða markmiðum væri hægt að ná með þessu fyrirkomulagi í samanburði við almennt útboð.

Þetta kom fram í glærum sem voru kynntar fyrir Alþingisnefndunum 21. og 24. febrúar og Innherji fjallaði um.

Til þess að ná lögbundnu markmiði um hagkvæmni, þ.e.a.s. að fá hæsta verð fyrir eignarhlutinn, lagði Bankasýslan til að salan færi fram með tilboðsfyrirkomulagi. Stofnunin leit á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem eitt samfellt ferli, sem gæti verið framkvæmt í nokkrum áföngum og með mismunandi söluaðferðum.

„Markmiði um dreift eignarhald var náð með frumútboði, enda hefur Íslandsbanki flesta hluthafa af skráðum félögum á Íslandi og fjölbreyttra eignarhald heldur en flest, ef ekki öll skráð félög á Íslandi,“ sagði í kynningu Bankasýslunnar.

„Með þessu fyrirkomulagi er mun líklegra að ríkissjóður afli hámarksverðs og takmarki áhættu vegna sölu, heldur en með markaðssettu útboði, í samræmi við fyrrnefnda forgangsmeginreglu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×