Innherji

CCP í fjárfestingafasa: „Við þurfum að taka áhættu og læra af því“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP VÍSIR/VILHELM

Tölvuleikjafélagið CCP, sem fagnar brátt aldarfjórðungsafmæli, er í miklum fjárfestingafasa að sögn forstjórans Hilmars Veigars Péturssonar. Hann segir að tölvuleikjaiðnaðurinn geti orðið ein af efnahagstoðum landsins ef vel er haldið á spöðunum og að Íslendingar geti lært mikið af Suður-Kóreubúum þegar kemur að innviðafjárfestingu.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi tapaði CCP 2,4 milljónum Bandaríkjadala í fyrra en til samanburðar nam hagnaður á árinu 2020, sem var eitt besta rekstrarárið í sögu félagsins, 5,4 milljónum dala.

„Þetta kemur til vegna þess að við erum í mjög stórum fjárfestingafasa þessi misserin. Þessi fjárfesting er sett inn í ársreikning í gegnum rekstur en er ekki eignfærð – ef við værum að eignfæra hana værum við í töluverðum hagnaði. Við höfum bolmagn til að fjárfesta umfram tekjur og þetta er niðurstaðan, við getum kallað það yfirlýsingu um trú okkar á framtíðina,“ segir Hilmar. Fram undan er því mikil útgáfa af nýjum leikjum.

„Við þurfum að taka áhættu og læra af því."  Í tölvuleikjaiðnaðinum þurfi fyrirtæki að vera stöðugt í þróun og að enduruppgötva sig til að komast af, bætir hann við. Afar fá fyrirtæki í iðnaðinum hafa náð sama aldri og CCP, og jafnframt er mjög fágætt að tölvuleikir lifi í 20 ár eins og EVE Online.

Tekjur CCP námu tæplega 63,6 milljónum dala á síðasta ári, jafnvirði um 8,3 milljarða króna, og jukust um 1,6 milljónir dala frá árinu á undan. Hilmar segir að það sé töluvert afrek að hafa náð að auka tekjur milli ára í ljósi þess að árið 2020 var metár í tölvuleikjaiðnaðinum.

Áhrifamikið að sjá innviðafjárfestingu í Suður-Kóreu

Þegar CCP var keypt af suðurkóreska leikjafyrirtækinu Pearl Abyss fyrir tæpum fjórum árum síðan voru uppi vangaveltur um að íslenska fyrirtækið myndi hverfa af landi. Sú hefur ekki orðið raunin og í dag starfa 230 manns á höfuðstöðvum CCP í Grósku í Reykjavík en auk þess starfa um 50 manns í Bretlandi og annað eins í Sjanghæ í Kína.

„Stóra breytingin er kannski sú að samtalið um það sem við gerum hefur dýpkað. Pearl Abyss gerir MMO leiki (margspilunarleiki á netinu) eins og við og við höfum getað miðlað mikilli reynslu okkar á milli. Það er líka einstakt að vinna með Kóreubúum því ólíkt okkur eru þeir mjög langtímahugsandi, eiga eflaust heimsmet í þeim efnum. Við Íslendingar höfum hins vegar ekki verið þekktir af slíku – en merkilega nokk hefur þetta farið mjög vel saman, þarna hefur myndast mjög skemmtileg dýnamík sem er alveg ný.“

Til þess að við getum búið til einhvern iðnað á kóreskan skala þurfum við að flytja inn sérfræðinga. Það sem við sjáum hér er bara tilraunastofuútgáfan af því sem má færa yfir allt Ísland.

Hilmar segir að Suður-Kórea, sem var eitt fátækasta land heims fyrir árið 1960 en er nú eitt af þeim ríkustu, sé hálfgert undraverk.

„Þeirra stærsta útflutningsvara er menning, og það á skala sem aldrei hefur þekkst áður. Hagkerfið er alveg ótrúlega skipulega byggt upp hjá þeim, með skipulagðri, strategískri fjárfestingu í innviðum til að koma sér á þennan stað. Þau byrja mjög snemma, marka sér t.d. þá stefnu að vera með besta internet í heimi, ná því fyrir löngu síðan og byggja síðan lög ofan á lög í þessu. Það er mjög áhrifamikið að sjá hvernig þau hafa gert þetta og eitthvað sem við getum lært af.“

Tölvuleikjaiðnaður getur orðið efnahagsstoð

Starfsumhverfi tölvuleikafyrirtækja hefur farið batnandi frá árinu 2009 eftir því sem endurgreiðslukerfið fyrir nýsköpunarverkefni hefur verið eflt. Nú er það nokkuð sambærilegt því sem þekkist í nágrannalöndum okkar að sögn Hilmars.

„Það eru enn lönd eins og Kanada sem eru langt fyrir ofan okkur en við erum alveg í meðaltalinu núna. Og það er mjög mikilvægt að festa það í sessi og halda kúrs. Breytingin árið 2020 var sett til eins árs og svo núna er endurskoðun í gangi. Ég hvet alla sem koma að því að halda áfram á þessari leið,“ segir Hilmar.

Ef við gefum okkur tíu ár til viðbótar á þessari leið þá erum við komin í 100 fyrirtæki sem er stærð sem er farin að skipta verulega máli fyrir hagkerfið.

„Þetta eru langtímaverkefni en langur tími er engin eilífð í þessu. Fimm ár geta skilað ótrúlega miklu og þegar verkefni í þessum geira fara að ganga, þá fara þau að ganga fyrir alvöru. Við fórum frá því að vera eina tölvuleikjafyrirtækið á Íslandi í 10 ár og 10 árum síðar höfum við 17 fyrirtæki sem eru bara vel lífvænleg. Ef við gefum okkur tíu ár til viðbótar á þessari leið þá erum við komin í 100 fyrirtæki sem er stærð sem er farin að skipta verulega máli fyrir hagkerfið. Tölvuleikjaiðnaðurinn út af fyrir sig getur orðið ein af efnahagsstoðum landsins.“

Eruð þið í samkeppni við önnur íslensk tölvuleikjafélög?

„Það er frábært að öllu leyti að fleiri tölvuleikjafyrirtæki dafni á Íslandi. Vissulega er fólk með reynslu takmörkuð auðlind en við einbeitum okkur að því að stækka kökuna þegar kemur að starfsfólki. Þegar kemur að markaðinum þá erum við engan veginn í samkeppni því hann er svo stór. Við erum í miklu samstarfi þar, höfum tengsl um allan heim og sterkt vörumerki og beitum okkur mikið til að greiða götur annarra íslenskra leikjafyrirtækja. Það er ekkert betra fyrir okkur heldur en að það verði annað fyrirtæki eins stórt eða jafnvel stærra en við.“

Hvernig gengur að manna sérhæfð störf hjá CCP?

„Ótrúlega vel, við höfum ótrúlega mikla snillinga sem hafa verið tilbúnir að flytja hingað og höfum sett upp ákveðna umgjörð utan um það. Til að við getum ráðið ungt fólk úr háskólum þurfum við fólk með reynslu til að kenna því til verka, og fyrir hvern erlendan sérfræðing sem við ráðum inn getum við kannski ráðið 3-5 beint úr háskóla. Þetta er byggingarefnið, til þess að við getum búið til einhvern iðnað á kóreskan skala þurfum við að flytja inn sérfræðinga. Það sem við sjáum hér er bara tilraunastofuútgáfan af því sem má færa yfir allt Ísland,“ segir Hilmar.

Hálf milljón dollara til Úkraínu

Heilt yfir alla EVE leikina hafa yfir 50 milljón manns spilað einhvers konar EVE-leik á tölvu eða farsíma. Á bilinu 1-2 milljónir spila í hverjum mánuði og nýliðun er töluverð. Árið 2020 voru vel yfir 11 milljónir sem spiluðu leikina í fyrsta skiptið.

„Þetta er félagshagkerfi, fólk sem tekur þátt upplifir sig sem hlut af skipulagsheild sem því þykir vænt um. Rétt eins og landsvæði, hugmyndin um lönd sem skipulagsheild er um 500 ára gömul og borgríki kannski eldri. Ef við spyrjum EVE spilara hver er þeirra mikilvægasta skipulagsheild, þá eru margir sem myndu svara til að þeir hafi meiri áhuga á því sem er að gerast innan EVE heimsins en í landsinu sínu,“ segir Hilmar.

Samfélagsábyrgð CCP, segir Hilmar, snýst meðal annars um að veita næstu kynslóð innblástur svo að byggja megi hugverkaiðnað á heimsmælikvarða. VÍSIR/VILHELM

Fjöldi og samtakamáttur leikmanna EVE Online skilar sér í öflugu fjáröflunarstarfi þegar mikið liggur við. Fyrsta átakið var árið 2004 eftir náttúruhamfarirnar í Suðaustur-Asíu og síðan þá hefur CCP efnt til tíu söfnunarátaka og safnað meira en milljón Bandaríkjadölum.

„Við settum algjört met nú í söfnun fyrir Úkraínu, eða hálfa milljón dollara. Þar styðjum við Flóttamannahjálp SÞ og mannúðarverkefni á vegum Seðlabanka Úkraínu. Það er töluvert af fólki frá Úkraínu sem vinnur hjá okkur og þau lögðu til að best væri að senda pening til Úkraínu og við fundum lausn á því,“ segir Hilmar.

Fjáröflunarstarf endurspeglar samfélagsábyrgð EVE-samfélagsins en að sögn Hilmars er stærsta samfélagsverkefni CCP að veita næstu kynslóð innblástur.

„Við þurfum að halda þessu færibandi gangandi og hugsa á stórum skala um hvernig við byggjum upp nýsköpun og hugverkaiðnað á heimsmælikvarða. Það gerum við með þeim tólum og tækjum sem við höfum verið að skerpa til síðustu áratugina og við höfum stanslaust verið að gefa til baka inn í stjórnkerfið og reyna að auðvelda leiðina fyrir næstu kynslóð. Smám saman getum við gert tröppugang þar sem uppskera hvers áratugar verða fleiri stór og árangursrík fyrirtæki.“

Eina erlenda tölvuleikjafélagið með tvö leyfi í Kína

CCP rekur stóra starfstöð í Sjanghæ í Kína en undanfarið hafa Kínverjar gert stórar skipulagsbreytingar á kerfinu sínu og því hvernig markaðsleyfi fyrir tölvuleiki eru veitt. CCP er nú í þeirri öfundsverðri stöðu að vera eina útlenda fyrirtækið til að hafa tvö markaðsleyfi fyrir tölvuleiki í landinu.

Í fyrra gaf CCP út farsímaútgáfu af EVE Online, EVE Echoes, í samstarfi við Netease, sem er risavaxið kínverskt tölvuleikjafyrirtæki með tugþúsundir starfsmanna um allan heim.

„Við hófum samstarf 2017 um að búa til farsímaútgáfu af EVE frá grunni og upp og það hafa verið hundruð manns í vinnu við að gera þetta í samstarfi við okkur. Árið 2020 gáfum við leikinn út alþjóðlega en ári síðar, í ágúst 2021, kom hann út í Kína og spiluðu 13 milljónir manns leikinn á bara fyrsta mánuði eftir útgáfu þar.“

Fanfest samblanda af árshátíð og þjóðfundi

Um næstu helgi verður EVE Online Fanfest haldið í Laugardalshöllinni, hið fyrsta í tæp fimm ár en Hilmar segist eiga von á meira en þúsund manns um helgina.

„Fanfest er eins konar samblanda af árshátíð og þjóðfundi, en við höfum ekki haldið Fanfest síðan 2018. Við fórum reyndar með Fanfest um heiminn árið 2019 þegar við ferðuðumst til yfir 9 borga, frá Sidney til Las Vegas til Pétursborgar í Rússlandi. Þetta var svaka puð. Svo kom COVID og ekkert í boði. Það er dásamlegt að sjá þetta koma aftur og nauðsynlegur innblástur fyrir alla. Og auðvitað gaman að koma með EVE spilara aftur til Reykjavíkur.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.