Skoðun

Heimurinn er okkar, ný menntastefna Mosfellsbæjar

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir skrifar

Heimurinn er okkar er heitið á nýrri menntastefnu Mosfellsbæjar sem samþykkt var af bæjarstjórn í apríl síðast liðinn. Lærdómssamfélagið í Mosfellsbæ kom að gerð stefnunnar og má nefna fulltrúa frá skóla- og frístundastarfi, börn, foreldra, starfsfólk, íbúa og kjörna fulltrúa. Haldið var skólaþing í Helgafellsskóla, rafrænt íbúaþing, lögð fyrir viðhorfskönnun fyrir allt starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og var sérstaklega rætt við börn í leikskóla um hvernig leikskóla þau vilja hafa í sínum bæ. Reglulega var vinnan kynnt og rædd í fræðslunefnd. Verkefnateymi sá um alla vinnu og framkvæmd stefnunnar en í teyminu sátu fulltrúar frá leikskólum, grunnskólum, frístund, Listaskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Mennastefnan ber merki um mikinn metnað í skólastarfi og umhyggju fyrir nemendum og mun tryggja að Mosfellsbær verði áfram í fremstu röð í skólamálum.

Vöxtur, fjölbreytni, samvinna

Ný menntastefnan byggir á þremur stoðum sem eru vöxtur, fjölbreytni og samvinna. Innan hverrar stoðar eru markmið og lykilorð. Aðaláherslan er á velferð og líðan nemenda en eins og fram kemur í stefnunni er “Ör­yggi og vellíð­an eru und­ir­staða þess að börn blómstri í námi og leik. Því skal tryggja að börn fái tæki­færi til þess að efla styrk­leika sína og tak­ast á við áskor­an­ir í ör­uggu og hvetj­andi um­hverfi.”

Við innleiðingu stefnunnar er sett upp aðgerðaráætlun með mælaborði sem tekur til alls skóla- og frístundastarfs. Hver og einn skóli mun setja upp aðgerðaráætlun sem birtist í framkvæmdaáætlun skólanna. Stefnan er sett upp með þeim hætti að auðvelt er að vinna með innihaldið á alla mögulega máta.

Innleiðing stefnunnar hefst næsta haust á nýju skólaári og verður formlega ýtt úr vör 23. september á sameiginlegum fræðsludegi grunn - og leikskóla í Mosfellsbæ.

Horft til Mosfellsbæjar í skólamálum

Skólamál eru mikilvægustu mál sveitarfélaganna og þar stendur Mosfellsbær sig einna best. Horft til skólaþróunar í Mosfellsbæ því hér er framúrskarandi skólastarf og framúrskarandi starfsfólk. Við höfum mætt mikilli barnafjölgun með breytingum og farið ótroðnar slóðir. Í bæinn hefur flutt metfjöldi barnafólks en hér eru engir biðlistar á leikskólum. Þann 1. apríl var búið að bjóða öllum börnum, sem fædd eru í ágúst 2021 eða fyrr, leikskólapláss í leikskólum bæjarins. Hvergi eru fleiri ungbarnapláss á leikskólum þar sem eins árs gömul börn fá þjónustu að loknu fæðingarorlofi foreldra. Nýr grunnskóli, Helgafellsskóli, var byggður nú er leikskóli að fara í byggingu í sama hverfi. Ekkert sveitarfélag fór í jafn mikið átak í að láta skanna allt húsnæði og viðhald stofnana ávallt verið efst á blaði hjá umhverfissviði Mosfellsbæjar.

Börnin mikilvægust

Ég óska Mosfellingum til hamingju með nýja menntastefnu og vona að skólastarf megi blómstra áfram. Börnin í bænum eru mikilvægustu íbúarnir og veit ég að framtíðar bæjarstjórn mun tryggja að svo verði áfram. Ég er ákaflega stolt að hafa fengið að sitja í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ og tekið þátt í að byggja upp bæinn og styðja við skólastarf á mesta uppbyggingartíma í sögu bæjarins. Ég þakka fyrir mig og kveð stjórnmálin í Mosfellsbæ og lít um leið stolt yfir farinn veg.

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×