Skoðun

Fjöl­breytt leigu­hús­næði

Einar Þorsteinsson skrifar

Við þurfum öll að eiga heimili, hvort sem það er í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Sum okkar vilja eiga húsnæði á meðan aðrir annað hvort kjósa að leigja eða eru fastir á leigumarkaði af einhverjum ástæðum. En það skiptir ekki máli hvaða búsetu form fólk kýs, það sem skiptir máli er að nóg sé til staðar af húsnæði sem hentar fyrir mismunandi hópa samfélagsins. Því miður er staðan nú að leigumarkaðurinn er sprunginn og þörf er á tafarlausum aðgerðum.

Við þurfum fleiri almennar leiguíbúðir

Við í Framsókn leggjum ríka áherslu á að byggðar verðir fleiri almennar íbúðir í gegnum óhagnaðardrifin leigufélög. Leigjendur hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum greiða almennt lægra hlutfall af ráðstöfunartekjum í húsaleigu og eru ánægðari með húsnæðið sitt. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fólk í lægstu tekjutíundinni upplifi húsnæðisöryggi og geti búið sér og fjölskyldum sínum öruggt heimili. En samkvæmt skýrslu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar mælist húsnæðisöryggi mest hjá þeim sem leigja af óhagnaðardrifnum leigufélögum. Þá skiptir það miklu máli að tekið sé vel utan um þá einstaklinga sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda. Biðin eftir slíku húsnæði reynist öllum mjög erfið og því þarf að fjölga íbúðum.

Við þurfum íbúðir fyrir alla hópa

Við í Framsókn teljum einnig þörf á að fjölga leiguhúsnæði fyrir eldra fólk, en mikilvægt er að eldra fólk sem hætt er að vinna geti búið í öruggu leiguhúsnæði og þurfi ekki að búa við ótta um að vera sagt upp leigunni. Halda verður áfram og byggja fleiri íbúðir víðs vegar um höfuðborgarsvæðið þar sem stutt er í verslun, dagdvöl og heilbrigðisþjónustu. Það sama má segja varðandi þjónustuíbúðir og íbúðir fyrir fatlað fólk og öryrkja.

Við þurfum leiguíbúðir um alla borg

Við í Framsókn vitum að húsin byggja sig ekki sjálf. Við vitum að hægt er að laða að fasteignafélög til að byggja upp í Reykjavík með því að fjölga lóðum um alla borg og greiða fyrir skipulagi. Það er stefna okkar í Framsókn að fjölga íbúðum á höfuðborgarsvæðinu um 3.000 á ári, hvort sem þau eru til eigu eða leigu. Við viljum að allir geti búið í Reykjavík.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×