Körfubolti

Áreitti mömmu og ýtti við konu Chris Paul

Sindri Sverrisson skrifar
Chris Paul lét hinn unga stuðingsmann Dallas heyra það.
Chris Paul lét hinn unga stuðingsmann Dallas heyra það. Skjáskot og Getty

Chris Paul var æfur eftir framkomu ungs stuðningsmanns Dallas Mavericks í garð fjölskyldu hans á leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í gær.

Eiginkonu Pauls var ýtt og móðir hans varð einnig fyrir snertingu, að því er fram kemur í frétt ESPN.

Þær voru, ásamt börnum hjónanna, áhorfendur á leik Phoenix Suns gegn Dallas Mavericks sem Paul og félagar í Phoenix töpuðu, 111-101.

„Vilja sekta leikmenn fyrir að segja eitthvað um stuðningsmenn en stuðningsmenn mega leggja hendur á fjölskyldur okkar… til fjandans með það!!“ skrifaði Paul á Twitter en hann átti auk þess afar erfitt uppdráttar í leiknum.

Dallas Mavericks staðfesti í tilkynningu að eitthvað hefði komið upp á á milli stuðningsmanns liðsins og fjölskyldu Pauls. Félagið sagði að um einn mann hefði verið að ræða sem hefði þegar í stað verið rekinn út úr American Airlines íþróttahöllinni.

Það hefur verið hiti í kolunum í einvíginu og ætla má að þannig verði það áfram annað kvöld í Phoenix. Staðan er 2-2 en vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram í úrslitaeinvígi vesturdeildarinnar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.