Handbolti

Snorri Steinn: Er drullu stressaður fyrir hvern einasta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson eggjar sína menn áfram.
Snorri Steinn Guðjónsson eggjar sína menn áfram. vísir/hulda margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var skiljanlega sáttur eftir sigurinn á Selfossi í kvöld. Með honum tryggðu Valsmenn sér sæti í úrslitum Olís-deildar karla.

„Ég er mjög sáttur. Ég reiknaði með mjög erfiðu einvígi en allir þrír sigrarnir voru mjög sannfærandi,“ sagði Snorri við Vísi eftir leikinn á Hlíðarenda.

Leikurinn var jafn framan af en á lokakafla fyrri hálfleiks stigu Valsmenn á bensíngjöfina og voru sjö mörkum yfir, 19-12, í hálfleik.

„Það kom smá meðbyr, hraðaupphlaupin gengu vel og við fórum að refsa þeim. Þetta er sama sagan í öllum þessum leikjum. Ég veit ekki hvort við gefum í eða þeir gefa eftir. Það skiptir mig ekki öllu máli. Við náðum frumkvæðinu og létum það ekki af hendi.“

Valsmenn voru með góða stjórn á leiknum í seinni hálfleik og Selfyssingar náðu aldrei að minnka muninn í minna en sex mörk.

„Það kom smá kafli sem var ekki alveg nógu góður en ég var líka að skipta inn á. En frammistaðan í þessu einvígi var frábær og margt sem við getum tekið með okkur. Við þurfum aðeins að anda, ná okkur niður og einbeita okkur að næsta einvígi,“ sagði Snorri.

Valsmenn hafa unnið alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni og alls níu leiki í röð. Þrátt fyrir það er Snorri með báða fætur á jörðinni.

„Ég er drullu stressaður fyrir hvern einasta leik og er alltaf að reyna að finna eitthvað. En ég pæli ekkert í einhverju tapi. Ég fer í leik til að vinna hann. Ég var drullu stressaður fyrir þennan leik og vissi að við þyrftum frammistöðu sem við fengum. En auðvitað er gríðarlega mikið sjálfstraust í liðinu og trú á að það sem við erum að gera og stöndum fyrir. Okkur líður vel,“ sagði Snorri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×