Skoðun

Hildur eða Dagur?

Karl Guðlaugsson skrifar

Sum mál eru landsmálapólitík og önnur eru borgarmálapólitík en stundum skarast þessir málaflokkar. Þannig er flugvallarmálið lands- og borgarpólitík og kemur ekki Reykvíkingum einum við og Íslandsbankamálið er dæmi um mál sem hefur ekkert með bæjar- og borgarpólitík að gera. 

Því þarf ég ekki að vera bundinn af því að kjósa það sama í sveitarstjórnarkosningum og Alþingiskosningum. Haft var eftir góðum þáverandi Sjálfstæðismanni sem núna er þingmaður annars flokks að það væri ekkert mál að deila við pólitíska andstæðinga sína í öðrum flokkum, en nöturlegt að þurfa að sitja undir og kljást við skítinn, flokkadrættina og baktalið í eigin flokki. 

Núna, akkúrat núna, er tæp vika til borgarstjórnarkosninga og fráfarandi forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík getur ekki einu sinni staðið heill með nýjum forystumanni Hildi Björnsdóttur eins og lesa má á Visi.is. Davíð, Bolli, Morgunblaðselítan, Bjarna-armurinn, Guðlaugs-armurinn eða hvað þetta nú heitir allt saman. Geta ekki sundraðir Sjálfstæðismenn grafið stríðsöxina í eina viku og staðið allir saman um að kjósa Hildi.

Borgarstjórnarkosningarnar snúast einmitt bara um val milli tveggja borgarstjóraefna. Ef það er „bara best“ að kjósa Dag þá geta kjósendur kosið alla aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn, en ef fólk vill að Hildur eigi möguleika á meirihlutasamstarfi við aðra flokka, er eini möguleikinn að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Þitt er valið kjósandi góður og svaraðu nú spurningunni viltu Hildi eða Dag?

Höfundur er áhugamaður um pólitík.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.