Skoðun

Tíma­móta­sam­komu­lag hjá Rósu í Hafnar­firði

Ó. Ingi Tómasson skrifar

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er skýr. Framkvæmdir við Reykjanesbraut frá hringtorginu við N1 að ljósunum við Góu og nýr Álftanesvegur sem liggur frá Reykjanesbraut við Góu á milli iðnaðarsvæðanna í Hafnarfirði og Garðabæ og endar í Engidal eru á áætlun samkvæmt samgöngusáttmálanum á árunum 2024 - 2028, alls fara 13,1 milljarðar í þessar framkvæmdir. Samgöngusáttmálinn kveður á um að framkvæmdir við Borgarlínu frá Firði að Miklubraut verði á tímabilinu 2027 – 2030, alls fara 9,4 milljarðar í þessa framkvæmd.

Samgöngusáttmálinn og Betri samgöngur

Undir öruggri forustu Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar og þáverandi formanns Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu náðist tímamótasamkomulag við ríkið um fjármögnun framkvæmda á samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Í samkomulaginu fólst að fram til ársins 2033 er heildarfjármögnun framkvæmda samkvæmt samgöngusáttmálanum alls 120 milljarðar sem skiptast þannig að 52,2 milljarðar fara í stofnvegi, 49,6 milljarðar fara í Borgarlínu, 8,2 milljarðar í hjólastíga og 10 milljarðar í annað. Þessu tengt var félagið Betri samgöngu ohf. stofnað með sérstökum lögum árið 2020 til að sjá um alla framkvæmd samgöngusáttmálans þ.m.t. hönnun og framkvæmd vegna borgarlínu.

Viðutan Viðreisn

Oddviti Viðreisnar opinberar enn og aftur vanþekkingu sína á málefnum Hafnarfjarðar í grein sem hann skrifar á visir.is. Lítum á nokkrar staðreyndir. Borgarlína er samkvæmt samgöngusáttmálanum á dagskrá til Hafnarfjarðar 2027-2030. Oddviti Viðreisnar greiddi atkvæði gegn deiliskipulagi á Hraunum Vestur þar sem gert er ráð fyrir 490 íbúðum ásamt verslun og þjónustu, oddviti Viðreisnar greiddi atkvæði gegn byggingu Hafró á Flensborgarhöfn þar sem nú vinna um 140 manns. Met var slegið í úthlutun atvinnulóða á síðasta ári þegar 47 lóðir seldust. Icelandair er að flytja höfuðstöðvar sínar til Hafnarfjarðar, Tækniskólinn flytur alla starfsemi sína til Hafnarfjarðar, Isavia hefur flutt stóran hluta starfsemi sinnar til Hafnarfjarðar og mikil eftirspurn er eftir atvinnulóðum þar sem ekkert lát er á flótta fyrirtækja frá Reykjavík til Hafnarfjarðar þar sem Viðreisn er í meirihluta. Staðreyndirnar tala sínu máli, staðreyndir sem oddvita Viðreisnar ætti að vera kunnugt um.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×