Körfubolti

Pavel leikur hundraðasta leikinn sinn í úrslitakeppni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij í leik með Valsmönnum sem hafa ekki orðið Íslandmeistarar í 39 ár.
Pavel Ermolinskij í leik með Valsmönnum sem hafa ekki orðið Íslandmeistarar í 39 ár. Vísir/Vilhelm

Valsmaðurinn Pavel Ermolinskij verður í kvöld aðeins tíundi leikmaðurinn í sögunni sem nær að spila hundrað leiki í úrslitakeppni karla í körfubolta.

Hundraðasti leikur Pavels í úrslitakeppni verður jafnframt fyrsti leikur karlaliðs Vals í úrslitaeinvígi í þrjátíu ár.

Leikur eitt í úrslitaeinvígi Vals og Tindastóls í úrslitakeppni karla hefst klukkan 20.30 í Origo-höllinni en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds hefst klukkan 20.00 á sömu stöð og leikurinn verður síðan gerður upp að honum loknum.

Pavel og félagar í Valsliðinu hafa unnið sex fyrstu leiki sína í úrslitakeppni sem er ekki algengt. Hundraðasti leikur hans hefði því að öllu eðlilegu átt að koma í undanúrslitunum en það hefur bara enginn ráðið við Valsliðið í þessari úrslitakeppni.

Valsmenn sópuðu þannig Íslandsmeisturum Þórs frá Þorlákshöfn út úr undanúrslitunum með þremur sigrum með 11,3 stigum að meðaltali og það þrátt fyrir að leik tvo leikjanna á útivelli.

Pavel lék sinn fyrsta leik í úrslitakeppni með ÍR-ingum vorið 2003 en þegar hann kom aftur heim eftir atvinnumennsku þá fór hann í KR. Hann lék í KR frá 2010 til 2011 og náði þar tveimur úrslitakeppnum og eftir tvö ár í Svíþjóð kom hann heim og var lykilmaður þegar KR varð Íslandsmeistari sex ár í röð frá 2014 til 2019.

Pavel hefur síðan leikið með Val í þrjú tímabil. Á öðru árinu komst liðið í úrslitakeppni í fyrsta sinn í 29 ár og nú er liðið komið í lokaúrslit í fyrsta sinn í þrjá áratugi.

Pavel er kominn í lokaúrslitin í áttunda skipti en hann hefur aldrei tapað þar. Pavel varð Íslandsmeistari með KR 2011, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 og 2019.

Þetta þýðir um leið að Pavel hefur verið í sigurliði í 73 af 99 leikjum sínum í úrslitakeppni sem þýðir að sigurhlutfall liða með hann innanborðs er 74 prósent.

Pavel er ekki sá eini í einvíginu sem nær væntanlega hundrað leikjum því Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikur sinn 99. leik í úrslitakeppni í kvöld.

 • Leikir Pavel Ermolinskij í úrslitakeppni:
 • Átta liða úrslit
 • 84% sigurhlutfall í 32 leikjum
 • (27 sigurleikir - 5 tapleikir)
 • 9 einvígi unnin
 • 2 einvígi töpuð
 • Undanúrslit
 • 68% sigurhlutfall í 37 leikjum
 • (25 sigurleikir - 12 tapleikir)
 • 8 einvígi unnin
 • 1 einvígi tapað
 • Lokaúrslit
 • 70% sigurhlutfall í 30 leikjum
 • (21 sigurleikur - 9 tapleikir)
 • 7 einvígi unnin
 • 0 einvígi töpuð
 • -

 • Flestir leikir í úrslitakeppni karla
 • 1. Gunnar Einarsson 149 leikir
 • 2. Guðjón Skúlason 133 leikir
 • 3. Brynjar Þór Björnsson 130 leikir
 • 4. Teitur Örlygsson 115 leikir
 • 5. Darri Hilmarsson 109 leikir
 • 6. Páll Kristinsson 106 leikir
 • 7. Páll Axel Vilbergsson 104 leikir
 • 7. Magnús Þór Gunnarsson 104 leikir
 • 9. Sigurður Á. Þorvaldsson 102 leikir
 • 10. Pavel Ermolinskij 99 leikir
 • 11. Sigurður Gunnar Þorsteinsson 98 leikirFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.