Handbolti

Sjáðu mark Gísla sem fór langt með að tryggja Magdeburg fyrsta titilinn í 21 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur leikið einkar vel með Magdeburg upp á síðkastið.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur leikið einkar vel með Magdeburg upp á síðkastið. getty/Martin Rose

Magdeburg steig risastórt skref í átt að sínum fyrsta Þýskalandsmeistaratitli síðan 2001 með naumum sigri á Füchse Berlin, 28-27, í gær. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sigurmark Magdeburg.

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka blés ekki byrlega fyrir Magdeburg, enda þremur mörkum undir, 22-25. En heimamenn gáfust ekki upp, skoruðu fjögur mörk í röð og náðu forystunni, 26-25. Lasse Anderson jafnaði fyrir gestina en Gísli kom Magdeburg aftur yfir, 27-26. Fabian Wiede jafnaði jafnharðan í 27-27.

Í lokasókn Magdeburg fékk Gísli boltann, réðst á vörn Füchse Berlin og kom boltanum framhjá Dejan Milosavljev í marki gestanna. Þetta reyndist sigurmark leiksins. Það má sjá hér fyrir neðan.

Markið var gríðarlega mikilvægt en Magdeburg er nú í frábærri stöðu á toppi þýsku deildarinnar. Liðið er með sex stiga forskot á Kiel og á auk þess leik til góða.

Gísli var markahæstur í liði Magdeburg með fimm mörk. Félagi hans í íslenska landsliðinu, Ómar Ingi Magnússon, skoraði fjögur mörk og gaf sjö stoðsendingar.

Magdeburg hefur góða reynslu af Íslendingum en Alfreð Gíslason og Ólafur Stefánsson voru tveir af aðalleikurunum í velgengni liðsins í kringum aldamótin. Magdeburg vann EHF-bikarinn og þýska meistaratitilinn 2001 og Meistaradeild Evrópu 2002. Í síðustu viku voru tuttugu ár liðin síðan Magdeburg varð fyrsta þýska liðið til að vinna Meistaradeildina.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Magdeburg. Á miðvikudaginn tekur liðið á móti Nantes í seinni leiknum í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Magdeburg vann fyrri leikinn í Frakklandi með þriggja marka mun, 25-28. Magdeburg vann Evrópudeildina á síðasta tímabili.

Magdeburg tapaði fyrir Kiel í bikarúrslitaleiknum um þarsíðustu helgi en er búið að vinna heimsmeistarakeppni félagsliða og getur því staðið uppi með þrjá stóra titla eftir tímabilið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.